Fara í efni

Nýnemar á viðskipta- og hagfræðibraut heimsóttu Íslensk verðbréf

Nemendur og kennarar í húsnæði Íslenskra verðbréfa
Nemendur og kennarar í húsnæði Íslenskra verðbréfa

Á dögunum heimsóttu nýnemar á viðskipta- og hagfræðibraut VMA ásamt kennurum verðbréfafyrirtækið Íslensk verðbréf, sem er með höfuðstöðvar sínar á Akureyri, og kynntust starfsemi fyrirtækisins og fengu fræðslu um ýmislegt er lýtur að verðbréfaviðskiptum.

Það verður aldrei of oft undirstrikað hversu mikilvægt það er fyrir VMA að eiga gott samstarf við atvinnulífið, enda er skólinn jú að undirbúa nemendur sem best til að takast á við fjölbreytt störf á vinnumarkaði.

Ekki aðeins á verknámsbrautum skólans er þetta mikilvægt, þetta á ekkert síður við um bóknámsbrautirnar. Gott dæmi um þetta góða samstarf var heimsókn nýnema á viðskipta- og hagfræðibraut skólans í Íslensk verðbréf, sem eru til húsa í Linduhúsinu svokallaða við Hvannavelli á Akureyri. Þar tók Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri viðskipta og vöruþróunar, á móti nemendum og fræddi þá um verðbréf, helstu tegundir þeirra og hvaða munur er á þeim t.d. varðandi vexti og áhættu. Hreinn fór einnig yfir feril verðbréfakaupa og -sölu, ræddi um Kauphöll Íslands og útskýrði hvernig mætti lesa úr töflum um hreyfingar á gengi verð- og hlutabréfa, kaup á þeim og sölur. Einnig ræddi Hreinn um verðbréfasjóði og hvers vegna þeir væru álitlegur kostur fyrir suma fjárfesta. Að erindi Hreins loknu fengu nemendur að skoða húsakynni ÍV og fræðast um þau störf sem þar eru unnin.

Eins og nafn fyrirtæksins gefur til kynna eru Íslensk verðbréf verðbréfafyrirtæki, sem eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins, veitir sérhæfða og sérsniðna þjónustu á sviði eignastýringar, markaðsviðskipta, sérhæfðrar fjárfestinga og sjóðastýringar. 

Á allan hátt var heimsóknin í Íslensk verðbréf ánægjuleg og vilja nemendur og kennarar þakka fyrir frábærar móttökur.