Fara í efni

Rætt um ljósmyndun í fyrsta þriðjudagsfyrirlestri vetrarins

Sigurður Mar Halldórsson, ljósmyndari og kennari.
Sigurður Mar Halldórsson, ljósmyndari og kennari.

Í vetur eins og síðustu vetur tekur VMA þátt í samstarfi með Listasafninu á Akureyri og Gilfélaginu um þriðjudagsfyrirlestra í Listasafninu á Akureyri. Fyrsti fyrirlestur vetrarins verður í dag kl. 17:00-17:40 og ríður ljósmyndarinn og framhaldsskólakennarinn Sigurður Mar Halldórsson á vaðið með fyrirlestur sem hann kallar Fegurðin í ófullkomleikanum. Þar fjallar hann um aftengingu ljósmyndarinnar við raunveruleikann, en við þetta viðfangsefni hefur Sigurður glímt undanfarin ár. Hann blandar nútímatækni í ljósmyndun við aldagamlar aðferðir.

Sigurður Mar kennir ljósmyndun við Menntaskólann á Tröllaskaga. Hann lærði fagið í Gautaborg og lauk sveinsprófi og síðar meistararéttindum.

Um árabil starfaði Sigurður við ljósmyndun og sem tökumaður fyrir sjónvarp, en fyrir áratug lauk hann kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri og sneri sér að kennslu.

Sem fyrr segir er þriðjudagfyrirlestur Sigurðar sá fyrsti í vetur. Framundan eru margir skemmtilegir og áhugaverðir fyrirlestrar sem verður greint frá hér á heimasíðunni.

Ókeypis aðgangur er á þriðjudagsfyrirlestrana og eru allir velkomnir.