Fara í efni

Mikilvægt að tilfinningarnar finni sér farveg í listinni

Stefán Páll Þórðarson.
Stefán Páll Þórðarson.

Að loknum grunnskóla var Grenvíkingurinn Stefán Páll Þórðarson allsendis óráðinn hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór. Sextán ára gamall flutti hann til Akureyrar og ákvað að fara í grunndeild málmiðna í VMA. „Stefna mín á þeim tíma var að verða bifvélavirki, enda hafði ég mikinn áhuga á bílum. Ég staldraði hins vegar stutt við í grunndeildinni, enda fann ég mig einfaldlega ekki í skólanum og ákvað að fara út á vinnumarkaðinn. Ég fór að vinna hjá Póstinum, var um tíma í Fjölsmiðjunni og gerði ýmislegt fleira. Árið 2014, þegar ég var tvítugur, flutti ég suður og fór m.a. að vinna í öryggisgæslu, sem blikksmiður og dyravörður. Á þessum árum var ég fyrst og fremst að leita að sjálfum mér. Tuttugu og þriggja ára er ég kominn í samband og í eigin íbúð í Kópavogi. Á þessum tíma kemst ég smám saman að því að það sem ég hafði verið vinna að var ekki nákvæmlega það sem ég hafði áhuga á að leggja fyrir mig. Ég hafði lengi verið að skapa tónlist, verið í hljómsveitum og samið tónlist af ýmsum toga. Ég sá fyrir mér ýmsar myndir í kringum tónlistina og fór þá að teikna. Frá barnsaldri hafði ég spilað mikið af tölvuleikjum og mér fannst ekki síst áhugavert að velta fyrir mér hvernig hið sjónræna útlit tölvuleikjanna yrði til. Þessar pælingar leiddu mig smám saman inn á þá braut að læra myndlist. Upprunalega hugmyndin var að fara í myndlistina til þess að geta í framhaldinu farið í skóla og lært að skapa tölvuleiki – og það er ennþá planið.
Tuttugu og fjögurra ára gamall ákvað ég að nú væri tímabært að láta drauminn um myndlist rætast og sótti um á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Ég reyndi að komast inn 2018 en þá var allt fullt. Ég fékk þá tækifæri til þess að taka nokkra bóklega áfanga í VMA og síðan komst ég inn á listnámsbrautina 2019. Þegar ég byrjaði hérna í skólanum var ég stressaður yfir því að ég væri búinn að missa þann eiginleika að sitja á skólabekk, eftir langa fjarveru frá skóla. Ég ákvað því að byrja rólega, taka fáa áfanga til að byrja með og laga mig aftur að því að vera í skóla. Fljótlega komst ég að raun um að þetta voru óþarfa áhyggjur, því ef áhuginn er til staðar lætur maður sig hafa það að taka námið af krafti.“

Stefán rifjar upp að hann hafi orðið fyrir einelti í grunnskóla og sú reynsla hafi markað hann, þó svo að hann sé fyrir löngu kominn yfir það og hafi náð sátt við gerendur. „Ég er kominn á þann aldur að ég er fyrir löngu búinn að sætta mig við þetta, þetta gerðist en er að baki. Á þessum árum átti ég erfitt með kynnast fólki og tjá mig og ég hafði lítið sjálfstraust. Það kom fyrir að ég hafði búið til tónlist sem ég var ánægður með en var síðan efins um að nokkrum öðrum þætti þetta nógu gott. Ég dreg ekki dul á að þetta gerðist nokkrum sinnum og dró mig niður. En síðar hef ég notað þetta í listinni. Í stað þess að bæla niður þessa tilfinngar hef ég leyft þeim að koma fram og ég túlka þær í listinni. Stundum geta verkin mín, bæði í tónlist og myndlist, verið svolítið dimm. En það truflar mig ekki því myndlist og tónlist og list bara yfirleitt hjálpar okkur til þess að upplifa tilfinningar á eflandi hátt. Að undanförnu hefur myndlistin fengið aukið vægi hjá mér og að sama skapi er áherslan á tónlistina ekki eins mikil og áður. Ég var mikið í allskyns tilfinningaríku og dimmu þungarokki. Ég spila á ýmis hljóðfæri; gítar, bassa, píanó, harmonikku og trommur og hef verið að fikta líka svolítið á fiðlu. Ég lærði á gítar, bassa, píanó og harmonikku, bæði á Grenivík og hér á Akureyri. Stundum þegar ég hvíli mig á myndlistinni gríp ég í hljóðfæri. Þetta er gott saman.“

Stefán segist ekki vera að flýta sér um of í náminu. Hann segist vilja njóta þess og gera hlutina eins vel og honum sé unnt. „Ég held að ástæðan fyrir því að margir detta út úr listinni, hvort sem það er tónlist, myndlist eða eitthvað annað, sé sú að fólk fari of geyst. Mér finnst mikilvægt að flýta sér hægt og gera hlutina vel,“ segir Stefán, sem kemur við sögu í nýju kynningarmyndbandi um listnáms- og hönnunarbraut VMA. Stefán segist upplifa námið á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA á afar jákvæðan hátt. „Kennararnir eru yndislegir og viskan sem þeir hafa miðlað til okkar er einstök. Við fáum mikið frelsi til þess að vera við sjálf og við fáum að gera það sem við viljum gera. Kennarnir ýta undir þá list sem við viljum skapa, með öðrum orðum gengur kennslan hérna ekki út á að setja okkur í ákveðinn ramma, heldur miklu fremur að fjarlægja hann og skilaboð kennaranna eru að við nemendurnir förum þá leið sem hugur okkar stendur til. Þetta er frábær nálgun sem ég kann mjög vel að meta.“

Sem fyrr segir horfir Stefán til þess að læra tölvuleikjahönnun að loknu stúdentsprófi af listnáms- og hönnunarbraut VMA – sem hann væntir að geti orðið eftir ca. eitt ár. Hann segist þegar hafa horft í kringum sig með skóla erlendis. Margir áhugaverðir skólar séu á þessu sviði víða um lönd – t.d. í Skotlandi, Bandaríkjunum, Danmörku og Noregi.

Þess skal getið að Stefán Páll hefur vinnuaðstöðu og tekur þátt í starfi Stúdíó Stíls á Akureyri, sem er til húsa við Skipagötu – nánar tiltekið á hæðinni fyrir ofan Ljósmyndastofu Páls. Auk Stefáns hafa þar vinnuaðstöðu sjö ungir listamenn sem hafa áður verið í námi í VMA, þar af sex á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar.

Vinnustofan varð að veruleika í maí sl. og er því eins árs í næsta mánuði. Síðastliðið sumar var Stúdíó Stíls listahópnum boðið að skapa myndverk á vegg í portinu bakvið húsið þar sem vinnustofan er. Stefán segir að stefnt sé á að gera sambærilegt veggverk næsta sumar. „Vonandi getum við gert fleiri slík verk og svolítið gert þetta listform að okkar og þannig skilið eftir okkur ummerki sem allir geta séð,“ segir Stefán Þór og bætir við að  hópurinn stefni að því að halda sýningu á verkum sínum í maí nk. Hægt sé að fylgjast með dagsetningu sýningarinnar á fb.síðu Stúdíó Stíls eða á Instagram á @studiostill.ak