Fara í efni

Töfruðu fram glæsilegan þriggja rétta málsverð

Átta matreiðslunemar elduðu þriggja rétta máltíð.
Átta matreiðslunemar elduðu þriggja rétta máltíð.

Það hefur verið fastur liður á vorönn í starfi grunndeildar matvæla í VMA að nemendur hafa boðið foreldrum og ættingjum til matarveislu til þess að gefa smá hugmynd um allt það sem nemendur læra í eldamennsku og framreiðslu í grunndeildinni.

Því miður þurfti að aflýsa þessum fasta lið í starfinu eins og svo mörgu öðru vegna Covid 19 takmarkana. Engu að síður var ákveðið að efna til veglegrar matarveislu í hádeginu í gær – undir öðrum formerkjum. Nemendur í öðrum bekk í matreiðslu sáu um eldamennskuna og buðu grunndeildarnemum, kennurum á matvælabrautinni, skólameistara og aðstoðarskólameistara til glæsilegs þriggja rétta hádegisverðar. Grunndeildarnemar sáu um framreiðslu.

Með þessu voru í það minnsta tvær flugur slegnar í einu höggi; hádegisverðurinn var mjög góð æfing fyrir 2. bekkjar nema í matreiðslunni og grunndeildarnemar fengu þjálfun í framreiðslu matarins og nutu hans einnig.

Hinir verðandi matreiðslumenn lögðu línur um matseðilinn og útfærðu hann á frábæran hátt. Gaman var að fylgjast með fumlausum vinnubrögðum nemenda, þeir gengu ákveðið til verks, skipulagið var greinilega gott og útkoman eftir því.

Matseðill dagsins var eftirfarandi:

Forréttur
Hægeldaður þorskur, borinn fram í Buerre blanc sósu, kremuðum jarðskokkum, basilpestó, sýrðum rauðlauk og íslenskum afilla karsa.

Aðalréttur
Kryddjurta marineruð lambakóróna með rauðvínssósu, fennel flan, trufflukartöflumús, sýrðum perlulauk og sýrðum sinnepsfræjum.

Eftirréttur
Volg eplabaka, borin fram með vanillurjómaís, skreytt með ristuðum möndlum.