Fara í efni

Annar bekkur í matreiðslu á vorönn

Ari Hallgrímsson fer yfir málin með nemendum sínum
Ari Hallgrímsson fer yfir málin með nemendum sínum

Annar bekkur matreiðslu er kenndur núna á vorönn í fjórða skipti á matvælabraut VMA og eru tíu nemendur í bekknum. Til þess að komast áfram í annan bekk matreiðslu þurfa nemendur að hafa lokið grunndeild matvælagreina, öðlast starfsreynslu og verið á samningi hjá meistara. Kennari 2. bekkjar nemanna er Ari Hallgrímsson.

Námið skiptist í bóklegt og verklegt og eru fjórir bóklegir áfangar; kalda eldhúsið, fagfræði, hráefnisfræði og aðferðafræði. Verklega kennslan er á miðvikudögum og fimmtudögum og þá vinna nemendur markvisst í eldhúsinu. Fyrri daginn er unnið að ýmsum undirbúningi en seinni daginn er komið að því að elda hina ýmsu rétti úr hráefninu.

Öðrum bekk í matreiðslu skal lokið áður en nemendur geta farið í þriðja bekk, sem er punkturinn yfir i-ið í námi matreiðslumanna. Að þriðja bekk loknum geta nemendur farið í sveinspróf og öðlast starfsréttindi.

Þegar litið var inn í tíma hjá nemendum í öðrum bekk í fyrstu kennsluvikunni voru þeir að elda súpu og undirbúa að elda bleikju. Framundan er skemmtileg og fjölbreytt önn í matreiðslunáminu.