Fara í efni

Öflugur stuðningur Össurar og Formúlu 1 við málmiðnaðarbrautina

Gefendur eru fyrirtækin Össur og Formúla 1.
Gefendur eru fyrirtækin Össur og Formúla 1.

Fjölmörg fyrirtæki hafa í gegnum tíðina stutt dyggilega við starf verknámsdeildanna í VMA með gjöfum á hinum og þessum hlutum sem nauðsynlegir eru til kennslu. Hlutir sem deildirnar hafa í mörgum tilfellum ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess að kaupa. Þessi stuðningur atvinnulífsins við skólann, sem bæði er í formi vélbúnaðar og ýmissa aðfanga til kennslu, er og hefur verið ómetanlegur.

Fyrir ekki löngu síðan fékk málmiðnaðarbraut VMA að gjöf frá tveimur fyrirtækjum, stoðtækjaframleiðandanum Össuri og fyrirtækinu Formúlu 1 ehf., ýmsar vörur sem koma að góðum notum. Meðal annars er um að ræða renniplatta, fræsiplatta og bómur fyrir rennibekkina. Þetta eru bæði nýjar vörur og notaðar sem nýtast mjög vel í kennslunni.

Hörður Óskarsson brautarstjóri málmiðnaðarbrautar segir það alltaf jafn ánægjulegt hversu fyrirtæki í þessari atvinnugrein styðji vel við námið á brautinni. Hörður segist leggja mikla áherslu á góð tengsl við atvinnulífið enda sé það bæði hagur þess og skólans að nemendur fái eins yfirgripsmikið og fjölbreytt nám og kostur er - með öflugum og góðum tækjabúnaði.