Fara í efni

Enginn skandall

Baldvin B. Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs VMA.
Baldvin B. Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs VMA.
Baldvin B. Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs VMA, skrifar grein um verknám sem birtist í Akureyri vikublaði í dag. Greinin er eftirfarandi:

Baldvin Ringsted, kennslustjóri tæknisviðs VMA, skrifar grein um verknám sem birtist í Akureyri vikublaði í dag. Greinin er eftirfarandi:

Annað slagið heyrast raddir utan úr þjóðfélaginu um mikilvægi þess að efla verkmenntun. Slíkur góðvilji er okkur sem vinnum að þessum málaflokki kærkominn en oftar en ekki er slegið um af vanþekkingu. Nú nýverið var boðað til fundar innan atvinnulífsins hvar yfirskriftin var á þann veg að viðkomandi aðilar höfðu áhyggjur af lítilli aðsókn í verknám og þeirri spurningu varpað fram hvort sáskortur hamlaði atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
Það er skemmst frá því að segja að aðsókn í verknám við Verkmenntskólann á Akureyri er með miklum ágætum. Um 400 nemar stunda þar verknám af ýmsum toga og má til dæmis nefna að árleg inntaka nýnema á grunndeild málm- og véltæknigreina er ríflega 60 manns. Aðrar grunndeildir eru einnig vel sóttar, það er helst að eftir séu nokkur pláss í byggingagreinum en sá flokkur starfsgreina fór einna verst út úr hruninu og ekki von á öðru en að eitthvað hægði á nýliðun þar. Þar hefur samt verið ákveðinn stígandi á undanförnum árum og útlitið er nokkuð gott. Þessar upplýsingar voru sendar fréttamanni RÚV í framhaldi af frétt um ofangreinda yfirskrift en engin viðbrögð bárust frá fréttastofu allra landsmanna, enda ekki um neinn skandal að ræða.

Fyrir kosningar heyrist gjarnan að efla þurfi verknám en ég man ekki eftir að þær hugmyndir hafi verið útfærðar af nokkru viti. Slagorðið er engu að síður gott. Það má því greina velvilja úr ýmsum áttum en minna um efndir, minna um að þeir sem hæst hrópa kynni sér málin til hlítar.
Iðnfræðsla og önnur starfsmenntun hefur staðið í skugga stóra bróður, menntaskólans og enn þykir mun fínna að hafa stúdentspróf en sveinspróf. Angar af þessu viðhorfi skjóta upp kollinum af og til og má t.d. nefna að þegar ljóst varð að Becromal kæmi með starfsemi til Akureyrar var þáverandi iðnaðarráðherra tíðrætt um kjörlendi staðsetningarinnar vegna nálægðar við Háskólann á Akureyri. Ekki var minnst einu orði á VMA þó svo að flestir iðnaðarmenn sem þar starfa hafi hlotið sína menntun við þá stofnun. Mér er ekki kunnugt um hversu margir þar hafa stundað nám við HA.

Ef við víkjum að upphafsspurningunni, hvort skortur á iðnaðarmönnum á svæðinu skapi mönnunarvandamál tel ég að það öndverða eigi frekar við í flestum greinum, þ.e. að atvinnulífið hafi ekki nógu mörg nemapláss fyrir starfsnám. Það er rífandi gangur í mörgum greinum og má t.d. nefna að stálsmiðaskortur hefur verið viðvarandi á svæðinu en VMA er samt sem áður með langflesta stálsmiði í námi af öllum framhaldsskólum á Íslandi . Það tekur rúm 4 ára að fullnema stálsmið og hefur samstarf VMA og Slippsins verið afar farsælt og árangursríkt hvað það varðar. Það hefur meðal annars orðið til þess að fleiri stálsmiðir hafa lokið sveinsprófi á síðustu 3 árum en áratuginn þar á undan Aðrar greinar hafa margar hverjar þurft að takmarka nemafjölda og án þess hluta námsins sem fram fer á vinnustöðum verður neminn ekki fullnuma.
Hér er kjarni málsins: atvinnulífið og skólinn þurfa að vera samstíga í að kortleggja þörfina á fagmönnum, það er of seint að kalla eftir fagmönnum í einhverri grein ef þeir eiga að mæta í vinnu daginn eftir. Þegar hafa verið stigin nokkur skref í átt til samstarfs og samræðu þessara aðila og er raunin góð. Samstarf á fleiri sviðum er í burðarliðnum og má ætla að það leiði til hnitmiðari sóknar innan hinna ýmsu sviða starfsmennta.

Ef atvinnulíf og stjórnmálamenn vantar raunveruleg áhyggjuefni að vinna úr má segja að alvarleg staða sé að koma upp í starfsmenntageiranum vegna fjárveitinga til framhaldsskólanna. Ekki fæst fé til endurnýjunar tækjabúnaðar. Það segir sig sjálft að það er lítið vit í að kenna verðandi rafeindavirkjum að gera við myndbandstæki af því skólinn fær ekki að kaupa geislaspilara, svo tekið sé skiljanlegt en ósatt dæmi. Ör þróun í vélbúnaði, tölvustýringar og framþróun í tækni hefur ekki náð inn í skólana þar sem ekki er til fjármagn til að kaupa litlar kennsluvélar. Við höfum brugðist við með því að leita til atvinnulífsins og fá sérfræðinga til að kenna á þessar vélar en það er skammtímalausn vegna neyðar. Það væri fróðlegt að fá yfirlýsingar um þessa vá innan starfsmenntageirans og viðbrögð við henni frá velunnurum þessa málaflokks.