Fara í efni

Elduðu kræsingar fyrir félaga í Klúbbi Matreiðslumeistara á Norðurlandi

Nemendur leggja lokahönd á framreiðslu matarins.
Nemendur leggja lokahönd á framreiðslu matarins.

Mikið var um að vera á matvælabraut VMA sl. þriðjudag þegar félögum í Klúbbi matreiðslumeistara á Norðurlandi var boðið til matarveislu. Um eldamennskunni sáu nemendurnir átta sem nú eru í þriðja bekk í matreiðslunámi í VMA. Þeir ljúka náminu í vor með sveinsprófi. Þetta er í annað skipti sem þriðji bekkur í matreiðslu er kenndur í VMA og er mikil lyftistöng fyrir matvælanámið í skólanum. Um framreiðslu sáu nokkrir nemendur í grunndeild matvæla- og ferðagreina VMA.

Fyrst og fremst var um að ræða góða æfingu matreiðslunemendanna. Tveir unnu saman að því að útbúa hvern rétt – fjórir gerðu forréttina tvo, tveir aðalréttinn og tveir eftirréttinn. Útkoman var í alla staði hin glæsilegasta. Hér má sjá myndir sem voru teknar af þessu tilefni.

Matseðill kvöldsins var sem hér segir:

Smáréttir

Laxatartar með eggjahræru og kryddjurtar jógurtdressingu á bilini.

Rauðrófu Taco með geitaostakremi, fíkjumauki, blaðlauk og stökku beikoni.

Grafin gæsabringa á rúgbrauði með reyktum Brie osti, lauksultu og bökuðum tómat.

Kjúklingalifrarparfait borin fram á bakaðri skel með sykurlöguðum trönuberjum, beikonsultu og djúpsteiktu grænkáli.

Forréttir

  1. Túnfisk tataki með pikkluðum perlulauk og chilli, klettasalati í soja-engifer vinagrette og engifer majonesi.
  2. Nautatartarar með sesamkexi, lótusrót, dill mæjonesi og afila grasi.

Aðalréttur

Steinbítur vafinn parmaskinku, sætkartöflupolenta, marineraðir sveppir, grænertumauk, grillaður spergill og soðgljái.

Eftirréttur

Tarte au citron, sítrónu ganache, vanilla-hjartafróar parfait , borið fram með ítölskum marengs og sætum pistasíumulningi.

----

Um tuttugu manns snæddu þennan ljúffenga kvöldverð; félagar í Klúbbi matreiðslumeistara á Norðurlandi, kennarar við matvælabraut VMA og Benedikt Barðason, skólameistari. Báru gestir lof á matinn og framreiðslu nemenda. Ari Hallgrímsson, brautarstjóri matvælagreina, sagði ánægjulegt að fá félaga í Klúbbi matreiðslumeistara á Norðurlandi í heimsókn og þakkaði hann þeim fyrir áhugann og stuðninginn við starfsemi brautarinnar. Greindi hann frá starfseminni í vetur og undanfarin ár. Kom fram hjá honum að fjölmargir matartæknar og kjötiðnaðarmenn hefðu lokið námi í VMA. Sem endranær væru margir í grunndeildinni í vetur og núna á vorönn væri þriðji bekkurinn kenndur í matreiðslu í annað skipti. Í þrígang hefði annar bekkurinn verið kenndur. Benedikt Barðason skólameistari þakkaði matreiðslumeisturunum einnig fyrir komuna í skólann og þann velvilja sem þeir hefðu sýnt honum í gegnum tíðina. Hann sagði mikilvægi skólans fyrir svæðið væri ótvírætt og stjórnendur skólans gerðu sér fyllilega grein fyrir því og fólk tæki höndum saman um að skólastarfið gangi sem allra best.

Klúbbur matreiðslumeistara var stofnaður 1972 og er eitt af hans stærstu verkefnum að halda úti landsliði matreiðslumanna, sem nýverið gerði góða ferð á Ólympíuleikana í Stuttgart í Þýskalandi. Klúbbur matreiðslumeistara á Norðurlandi var hins vegar settur á stofn árið 2010. Í honum eru matreiðslumenn af bæði Norðaustur- og Norðvesturlandi. Klúbbfélagar hittast að jafnaði einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina og bera saman bækur sínar, spjalla saman yfir kaffibolla, hlýða á fyrirlesara, fá vörukynningar o.fl.