Fara í efni

Elduðu fyrir matreiðslumeistara á Norðurlandi

Lokahönd lögð á forrétt 1.
Lokahönd lögð á forrétt 1.

Klúbbur matreiðslumeistara á Norðurlandi efndi til fundar í húsakynnum matvælabrautar VMA í gær og nutu matreiðslumeistarar þar matar sem nemendur í 2. bekk matreiðslu í VMA töfruðu fram. Nemendur í grunndeild matvæla- og ferðamálabrautar þjónuðu til borðs og gerðu það afar faglega og vel. Hér eru myndir sem voru teknar við þetta tækifæri.

Í Klúbbi matreiðslumeistara á Norðurlandi eru á milli 20 og 30 matreiðslumeistarar og koma þeir af öllu Norðurlandi. Sumir þessarara matreiðslumeistara reka og starfa á veitingastöðum, aðrir í mötuneytum og sumir eru í öðrum störfum sem á einn eða annan hátt tengjast faginu.

Marína Sigurgeirsdóttir og Ari Hallgrímsson kynntu matreiðslumeisturunum námið í VMA og notuðu tækifærið til að þakka veitingastöðum og birgjum sérstaklega fyrir einkar gott samstarf og stuðning á einn eða annan hátt við starf matvæla- og ferðamálabrautar.

Matseðill kvöldsins varð þannig til að nemendum í 2. bekk í matreiðslu var skipt upp í fjóra hópa og hver hópur lagði fram hugmynd að rétti sem hann síðan eldaði og útfærði.

Forréttur 1
Reyktur svartfugl með brauð tvilli, bjór- og valhnetuhlaupi, pikluðum perlulauk, brúnuðu hvítkálskremi, dill- og selleryssnjó, hindberja- og rauðrófufroðu og bláberja vinaigrette.

Forréttur 2
Hörpuskel, bláskel og humar með svörtu Tuille krispi og kampavínssósu með dillolíu.

Aðalréttur
Lambakóróna með villisveppahjúp, gratín dauphinois, sveppasultu, myntuertumauki, smágulrótum á tvo vegu og lamba-glaze.

Eftirréttur
Svissneskur marengs og bláberjaskúffukaka með bláberjacoulis, hafracrumble, myntukavíar og jarðarber í anís-kanilsírópi.

------

Maturinn rann ljúflega niður og hrósuðu gestirnir nemendum fyrir vel útfærðan og góðan mat og þökkuðu matreiðslu- og grunndeildarnemunum fyrir ánægjulegt kvöld með hraustlegu lófataki.