Fara í efni

Ekki verra að hafa áhuga á bílum

Verðandi bifvélavirkjar.
Verðandi bifvélavirkjar.
„Það er ekki verra að hafa áhuga á bílum. Það er lítið vit í því að fara í nám sem maður hefur ekki áhuga á,“ segja þeir Halldór Hafþórsson, Róbert Sigurjónsson, Hjörtur Harðarson og Jakob Þór Möller, sem allir stunda nám í bifvélavirkjun.

„Það er ekki verra að hafa áhuga á bílum. Það er lítið vit í því að fara í nám sem maður hefur ekki áhuga á,“ segja þeir Halldór Hafþórsson, Róbert Sigurjónsson, Hjörtur Harðarson og Jakob Þór Möller, sem allir stunda nám í bifvélavirkjun.

Þegar tíðindamaður heimasíðunnar hitti þá fjórmenninga voru þeir í áfanga í rafsegulfræði, þar sem nemendur fá m.a. innsýn í hvernig vélar framleiða rafmagn. Áfanginn byggist upp á verklegu og bóklegu námi og eru fínar handahreyfingar alls ráðandi í verklegu kennslunni – t.d. voru nemarnir að æfa sig í því að lóða þegar heimasíðun kíkti í tíma.

Tveir af þessum fjórum nemendum, Halldór og Róbert, eru Akureyringar en Hjörtur er Austfirðingur, frá Refsmýri í Fellabæ og Jakob Þór er frá Laufási við Eyjafjörð.

„Já, við finnum okkur vel í þessu námi,“ segja strákarnir.  „Í bifvélavirkjafögunum erum við í hverjum áfanga í viku í senn og tökum síðan próf í honum. Þetta fyrirkomulag er mjög gott.“

Allir stefna strákarnir að því að starfa sem bifvélavirkjar í framtíðinni og tveir þeirra hafa þegar fengið vinnu í sumar í faginu – Jakob Þór á Grenivík og Hjörtur á Egilsstöðum. Róbert verður hins vegar í smíðavinnu á Akureyri og Halldór bíður svars um sumarvinnu. 

Á myndinni hér að ofan eru frá vinstri: Róbert Sigurjónsson, Jakob Þór Möller, Hjörtur Harðarson og Halldór Hafþórsson.