Fara í efni

Ekkert kynslóðabil - Leibbi og strákarnir

Leibbi við trommusettið með hljómsveitarfélögunum.
Leibbi við trommusettið með hljómsveitarfélögunum.

Stífar æfingar eru þessa dagana á leikriti Ólafs Hauks Símonarsonar, „Bjart með köflum“, sem Leikfélag VMA frumsýnir í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit 25. febrúar nk. Æft er á mörgum vígstöðvum, enda í mörg horn að líta.

Leikæfingarnar sjálfar hafa nú verið fluttar úr Gryfjunni í VMA fram á sviðið í Freyvangi og þar er nú æft daglega. Tónlistin skipar veglegan sess í sýningunni og til þess að flytja hana hefur verið sett saman hljómsveit sem er skipuð fjórum nemendum úr skólanum og einum kennara. Í hljómsveitinni eru: Ágúst Máni Jóhannsson á bassa, Bjarni Tristan Vilbergsson á sólógítar, Eyþór Arnar Alfreðsson á gítar, Guðbrandur Máni Filipusson á hljómborð  og Þorleifur Jóhannsson á trommur. Hljómsveitin hefur að undanförnu æft í rými í kjallara VMA en mun á næstu dögum flytja sig fram í Freyvang og þá verða leikatriðin og tónlistin „keyrð saman“.

Þorleifur - Leibbi, sem er kennari í byggingadeild VMA, er sannarlega enginn nýgræðingur á trommur því hann hefur barið húðir síðan 1964 eða á sjötta tug ára! Hann hefur spilað í ótal hljómsveitum. Fyrsta hljómsveitin var Bravó, sem var upphitunarhljómsveit á tónleikum í Reykjavík með stórhljómsveitinni Kinks. Síðar spilaði Leibbi m.a. í Hljómsveit Ingimars Eydal og Hljómsveit Finns Eydal og ennþá er hann að – núna trommar hann í hljómsveitinni Einn og sjötíu.

Ekkert kynslóðabil er sem sagt í hljómsveitinni sem spilar í „Bjart með köflum“ og segja má að hún samanstandi af tveimur deildum, þeirri eldri og yngri. Lögin syngja leikarar í sýningunni og sér Jokka Birnudóttir um söngstjórn og útsetningar.

Leikritið gerist í kringum 1970 og að sjálfsögðu er tónlistin í sýningunni frá þessum tíma. Þá voru í eldlínunni hljómsveitir eins og Hljómar, Flowers, Trúbrot, Dátar og Tatarar. Margir þekktir slagarar sem þessar hljómsveitir fluttu á sínum tíma hljóma í sýningunni. Flutt verða fimmtán lög, m.a. „Slappaðu af“ sem Flowers fluttu í þá daga en er hér í flutningi hljómsveitarinnar Silfurs, „Glugginn“, sem Flowers flutti einnig, Hljómalagið „Lífsgleði“, lag Rúnars Gunnarssonar „Undarlegt með unga menn“, sem hér er flutt af Bítlavinafélaginu og „Dimmar rósir“ með Töturum.