Fara í efni

Eitthvað sem aldrei hefur sést áður

Kristinn Örn Elfar Clausen í miðasölunni.
Kristinn Örn Elfar Clausen í miðasölunni.
„Ég get lofað því að umgjörðin á hátíðinni – t.d. ljósin – er eitthvað sem aldrei hefur sést áður. Í fyrra var lýsingin flott, en hún verður ennþá stórkostlegri í ár. Við höfum fengið ljós víða að af landinu og leggjum mikið upp úr að gera þetta allt sem glæsilegast. Heil herdeild úr rafiðnaðardeildinni ætlar að leggja okkur lið í þessu. Þetta verður engu lagi líkt og lengi í minnum haft,“ segir Kristinn Örn Elfar Clausen, skemmtanastjóri Þórdunu, um árshátíð VMA sem haldin verður nk. föstudagskvöld í Íþróttahöllinni á Akureyri.

„Ég get lofað því að umgjörðin á hátíðinni – t.d. ljósin – er eitthvað sem aldrei hefur sést áður. Í fyrra var lýsingin flott, en hún verður ennþá stórkostlegri í ár. Við höfum fengið ljós víða að af landinu og leggjum mikið upp úr að gera þetta allt sem glæsilegast. Heil herdeild úr rafiðnaðardeildinni ætlar að leggja okkur lið í þessu. Þetta verður engu lagi líkt og lengi í minnum haft,“ segir Kristinn Örn Elfar Clausen, skemmtanastjóri Þórdunu, um árshátíð VMA sem haldin verður nk. föstudagskvöld í Íþróttahöllinni á Akureyri.

Miðasala á árshátíðina er nú komin í fullan gang og gengur prýðilega. Kristinn Örn er bjartsýnn og segir góða stemningu fyrir hátíðinni í ár. „Það væri virkilega gaman að ná að slá aðsóknarmetið á árshátíðina í ár,“ sagði hann á skrifstofu Þórdunu í gær þar sem hann var að selja miða á árshátíðina. Miðasölu verður fram haldið í dag, á morgun og föstudag frá kl. 08. Miðasalan verður til kl. 16 í dag og á morgun og til kl. 13 á föstudag. Eindregin tilmæli eru frá stjórn Þórdunu, sem hefur veg og vanda að árshátíðinni, að geyma það ekki fram á síðustu stundu að kaupa miða.

Miðaverð eru eftirfarandi:
Matur og ball = 6.000 kr. fyrir meðlimi Þórdunu og 7.000 kr. fyrir aðra.
Ball = 2.000 kr.

Eins og greint hefur verið frá hér á heimasíðunni verða þeir Svali og Svavar, þáttastjórnendur á útvarpsstöðinni K100,5, veislustjórar. Dagskráin hefst með ræðu Hólmfríðar Lilju Birgisdóttur, formanns Þórdunu. Síðan hefst borðhald og á meðan á því stendur spilar Steinar Up. Einnig verður sýnt kennaragrín í tveimur hlutum sem félagar í leikfélaginu hafa haft veg og vanda að, flutt verður minni kvenna og karla, skólameistari ávarpar hátíðina og síðan verður varaformaður Þórdunu með stutt ávarp í lokin.

Boðið verður upp á hlaðborð frá Bautanum með heitum og köldum réttum. Heitu réttirnir eru: Eggjanúðlur með grænmeti, djúpsteiktur steinbítur á súrsætum hrísgrjónum, pastaréttur með skinku og sveppum Sedani í rjómasósu og villikryddað lambalæri með sveppasósu og kryddbökuðum kartöflum. Köldu réttirnir eru: Ferskt salat með tómötum, gúrkum, vínberjum, djúsdressingu og brauðteningum og grilluð kjúklingabringa með appelsínugljáa á steiktum grænmetishrísgrjónum.
Í desert verður ísterta borin fram með blönduðum ávöxtum, súkkulaðisósu, þeyttum rjóma og heimabökuðu ískexi.

Íþróttahöllin verður opnuð fyrir gesti klukkan 19:00 á föstudagskvöld og hefst dagskráin stundvíslega klukkan 20:00. Fólki gefst kostur á að kaupa sig inn á ballið, sem hefst kl. 23:00. Miðasala við innganginn. Athygli er vakin á því að ölvun ógildir aðgöngumiðann.
Fyrir dansi spilar fyrst hljómsveitin Úlfur, úlfur og síðan tekur hinn eini og sanni Páll Óskar við og fer á kostum, eins og venjulega.

Kristinn Örn Elfar Clausen segir það gríðarlega mikla vinnu að undirbúa árshátíðina, en undirbúningsvinnan er að stórum hluta í höndum stjórnar Þórdunu. „Framundan er næturvinna næstu tvær nætur við að standsetja Íþróttahöllina og maður nær vonandi að skjótast heim rétt fyrir árshátíðina til þess að skipta um föt. Ég get lofað því að þetta verður frábær skemmtun,“ segir skemmtanastjórinn Kristinn Örn.