Fara í efni

Eitt stykki McDonalds hamborgari á aðfangadagskvöld

Gunnur (í skólabúningi) og Sigríður Jóna.
Gunnur (í skólabúningi) og Sigríður Jóna.

Í þessari og síðustu viku hafa AFS-skiptinemasamtökin kynnt starfsemi sína fyrir nemendum í lífsleikni í VMA. Liður í kynningunni hafa verið frásagnir nemenda úr bæði VMA og MA af sinni upplifun sem skiptinemar í fjarlægum löndum.

Nemendurnir sem hafa sagt frá reynslu sinni sem skiptinemar á vegum AFS eru Elva Karitas Baldvinsdóttir úr VMA og Gunnar Vignisdóttir og Sigríður Jóna Pálsdóttir úr MA. Eva Karitas var í skóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þær Gunnur og Sigríður Jóna komu í VMA í síðustu viku og sögðu frá reynslu sinni. Hilmar Friðjónsson kennari tók þessar myndir við það tækifæri. Sigríður Jóna var skiptinemi í Portúgal en Gunnar fór alla leið austur til Hong Kong. Að sjálfsögðu kynntust þær stöllur ýmsu sem þær eiga ekki að venjast hér. Til dæmis þurfti Gunnur að klæðast skólabúningi í Hong Kong og hún kom einmitt í þeim búningi á kynninguna í VMA.  Jólamáltíðin sem Gunnur borðaði á aðfangadagskvöld var McDonalds hamborgari! Og í Portúgal kom það Sigríði Jónu á óvart að þar í landi stunda stúlkur ekki fótbolta og almennt væri frjálsræði ungs fólks minna þar en hér á landi.

Allar voru þær Elva Karitas, Gunnur og Sigríður Jóna sammála um að dvöl í öðru landi með nýjum siðum og annarri menningu væri mjög þroskandi fyrir alla þá sem það prófuðu.