Fara í efni

Einn dagur í einu

Lena Sóley Þorvaldsdóttir.
Lena Sóley Þorvaldsdóttir.

“Ástæðan fyrir því að ég kýs að segja mína sögu er að hvetja alla sem kynnu að vera í svipuðum sporum að gefast ekki upp. Það koma slæmir dagar og það koma líka góðir dagar. Þegar slæmu dagarnir komu hjá mér fann ég mér eitthvað að gera til þess að hjálpa mér að líða betur,” segir Lena Sóley Þorvaldsdóttir, nítján ára Akureyringur, nemandi í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Saga hennar er saga ungrar stúlku sem frá því í grunnskóla hefur farið djúpt niður í dimma dali og átt erfitt með að sjá ljósið við enda ganganna. En núna hefur birt til og hún er staðráðin í því að segja skilið við fyrra líferni í eitt skipti fyrir öll.

Lena Sóley rekur sögu sína aftur til þess tíma er hún var í grunnskóla á Akureyri. Hún segist hafa upplifað að vera hunsuð, hafi ekki átt vini og því oft verið ein á báti. “Ég talaði aldrei um þetta við pabba og mömmu og líðan mín kom ekki upp á yfirborðið fyrr ég fór að stunda sjálfskaða og grenntist hratt vegna þess að ég hætti meira og minna að borða. Mér leið ekki vel og það leyndi sér ekki. Ég var fjórtán ára þegar þetta var.”

Lena Sóley segist á margan hátt hafa verið í fullkominni afneitun. Hún hafi ítrekað ekki hlustað á varnaðarorð móður sinnar, t.d. varðandi félagsskap. “Ég hlustaði ekki á hana þá en í dag er ég henni þakklát fyrir að hafa leitt mér þetta fyrir sjónir.”

Nýorðin sextán ára segist Lena Sóley hafa byrjað að nota marijúana. “Það gerði ég vegna þess að mér var sagt að af því myndi mér líða betur. Mér fannst það góð tilhugsun og fór því að nota þetta efni. Um síðustu jól og áramót var svo komið að ég var farin að neyta fíkniefna á hverjum degi. Það var síðan á fyrstu dögum þessa árs sem mér fannst að botninum væri náð og ákvað þá að snúa við blaðinu. Ég lokaði á félagsskap sem hentar mér ekki lengur og er núna í góðum félagsskap sem hefur jákvæð áhrif á mig. Ég stunda áhugamálið mitt, bogfimi, meira en nokkru sinni fyrr og jafnframt er ég farin að lyfta, fara í göngutúra og borða rétt. Einkunnirnar hér í skólanum hafa jafnframt hækkað og nú hef ég metnað til þess að fá góðar einkunnir.”

“Maður ætlar sér aldrei út í neyslu og hugsar sem svo að engin ástæða sé til að ætla að með því að prófa verði maður fíkill. Ég gerði mér ekki grein fyrir því sjálf hversu djúpt ég var sokkin. Ég var orðin háð þessum efnum og vanlíðan mín var mikil þegar ég tók sterk efni í síðasta skipti í janúar sl. Þá skar ég mig með hnífi í annan handlegginn. Mamma hafði áður viljað að ég leitaði mér hjálpar á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri en ég hlustaði ekki á hana og sagði að ég þyrfti ekkert á slíku að halda. En í kjölfarið á þessu alvarlega atviki í janúar féllst ég á að fara inn á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Ég hafði sannarlega gert mér ranghugmyndir um starfsemi geðdeildarinnar. Þar leið mér vel og fékk þá hjálp sem ég þurfti.”

Í bataferlinu segir Lena Sóley hafa haft litla frænku sína ofarlega í huga. “Hún lítur upp til mín og ég vil alls ekki að hún fari á sömu braut og ég fór á sínum tíma. Ég vil vera góð fyrirmynd fyrir hana. Ég vil líka standa mig gagnvart seinni kærastanum mínum sem ég brást en þykir mjög vænt um. Ég einbeiti mér að því á hverjum degi að að halda mig frá þessu fyrra lífi og það hjálpar mér að hugsa sem svo að ég græði ekkert á því að leita aftur í þessi efni. Mér hefur tekist að byggja upp miklu meira sjálfstraust en ég hafði. Þetta er mikil vinna á hverjum degi. Ég hef kynnst mörgu góðu fólki að undanförnu og það hefur hjálpað mér að byggja upp sjálfstraust. Á árum áður var ég alltaf svartklædd og faldi mig í hettupeysum, vildi ekki sýna mig af því að mér fannst ég vera feit og gerði allt til þess að grenna mig vegna þess að tilfinningin var sú að krökkunum í kringum mig þætti eitthvað athugavert við mig. Ég hugsaði með mér að kannski væri rétta leiðin til þess að bæta úr að ég grennti mig. En núna hef ég lært að koma mér í form án þess að svelta mig. Ég er meðvituð um að átröskunin er til staðar og ég þarf að einbeita mér að því að halda henni frá mér. Þegar ég var í tíunda bekk í grunnskóla var átröskunin komin á alvarlegt stig, ég er 1.75 cm á hæð en var þá komin í 58 kíló. Ég get ekki talið upp öll þau skipti sem leið yfir mig vegna þess að ég var vannærð. Einu sinni leið yfir mig í sturtu og þá brotnuðu í mér framtennurnar.”

Lena Sóley rifjar upp að á fyrsta ári sínu í VMA hafi hún verið send á BUGL – Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. “Þessi tími var mér mjög erfiður. Ég átti erfitt með að fóta mig í nýjum aðstæðum, var feimin og lokuð og sjálfsmyndin brotin. Ég gekk til sálfræðings og í framhaldinu fór ég á BUGL. En það gagnaðist mér ekki vegna þess að ég var sjálf ekki tilbúin til þess að nýta mér hjálpina. Ég var ekki nógu þroskuð til þess að átta mig á því að ég þyrfti hjálp. Á þessum tíma skrifaði ég það sem ég kallaði sjálfsvígsplan sem er ekki falleg lesning en segir ýmislegt um hugarheim minn á þeim tíma.”

Ein af þeim leiðum sem Lena Sóley sá til þess að byggja sig upp var að finna sér íþrótt sem hún hefði áhuga á að stunda. Hún staldraði við bogfimi sem íþróttafélagið Akur á Akureyri býður upp á. Ástæðan var sú að bogfimi kemur fyrir í tölvuleik sem Lena Sóley þekkir vel til, Tomb Raider. Þar bregður söguhetjan Lara Croft sér í tölvuleik. Úr tölvuleiknum kom hugmynd Lenu Sóleyjar að því að fara að stunda bogfimi. Og hún fann sig heldur betur vel í bogfiminni og hefur á skömmum tíma náð ótrúlega góðum tökum á henni. Keppti á Íslandsmóti í Reykjavík nýverið, sem jafnframt var hennar fyrsta mót, og gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í sínum flokki. “Ég varð strax heilluð af þessari íþrótt og hef æft hana mjög stíft, allt upp í fjóra tíma á dag. Núna er ég að undirbúa mig fyrir að keppa á Norðurlandameistaramóti ungmenna í Larvik í Noregi um mánaðamótin júní-júlí í sumar.”

Lena Sóley er á listnámsbraut VMA. Hvað framtíðina varðar segist hún ekki vita á þessari stundu hvað hún taki sér fyrir hendur eftir að náminu lýkur. Eitt af því sem hún segist hafa áhuga á er að koma á fót dýrasnyrtistofu, enda hafi hún lengi haft mikið dálæti á dýrum.

“Þau skilaboð sem mér eru efst í huga til krakka sem eiga við sambærileg vandamál að stríða og ég glímdi lengi við er að taka einn dag í einu. Að rífa sig upp úr slíku hjólfari er ákveðið verkefni. Ég fann mér áhugamál og kynntist góðu fólki og hreyfi mig reglulega. Allir þessir hlutir hjálpa mér að láta mér líða vel á hverjum degi. Ég er staðráðin í því að halda mér áfram á þessari braut,” segir Lena Sóley Þorvaldsdóttir.