Fara í efni

Ein í karlasamfélaginu á gólfinu í Slippnum!

Guðrún Ösp Ólafsdóttir.
Guðrún Ösp Ólafsdóttir.

Ein þeirra fjögurra kvenna sem stunda nú nám í vélstjórn í VMA er Guðrún Ösp Ólafsdóttir. Hún rifjar upp að á sínum tíma hafi hún byrjað skólagöngu sína á náttúrufræðibraut í VMA. Síðan hafi hún farið í grunndeild málmiðnaðar og ætlað sér að fara í bifvélavirkjun en snúist hugur og farið í vélstjórn.Hún stefnir að því að ljúka svokölluðum B-réttindum í vélstjórn í desember nk.

Mikið hefur verið rætt að undanförnu um kynjaskiptingu á verknámsbrautum í VMA og öðrum framhaldsskólum. Vélstjórn er ein þeirra námsbrauta þar sem karlar eru og hafa alltaf verið í miklum meirihluta. Guðrún Ösp er ein þeirra sem má segja að hafi siglt gegn straumnum. Hún segist ekki geta lagt mat á af hverju konur fari ekki í námsgreinar eins og t.d. vélstjórn. Helsta ástæðan telur hún þó að sé einfaldlega sú að vélstjórn höfði almennt ekki til kvenna, hvernig svo sem á því standi.

En sjálf er hún mjög ánægð með að hafa farið þessa námsleið og segist síður en svo sjá eftir því. Samhliða vélstjórnarnáminu er hún á samningi í vélvirkjun í Slippnum Akureyri og er langt komin með hann. Er raunar eina konan í hópi yfir hundrað starfsmanna sem „vinna á gólfinu“ í Slippnum. En það truflar Guðrúnu Ösp hreint ekki og hún heldur sínu striki.
Manni sínum Jóni Dan Jóhannssyni, sem er stálsmiður, kynntist Guðrún Ösp einmitt í Slippnum, en hann starfar núna hjá fyrirtækinu Skúrnum ehf. á Akureyri.