Fara í efni

Duttu í páskaeggjalukkupottinn

Páskaeggjavinningshafarnir Fönn og Haukur Sindri.
Páskaeggjavinningshafarnir Fönn og Haukur Sindri.
Það styttist í páskana, páskafríið hefst að loknu skólastarfi í dag, föstudag. Eðlilega er því kominn smá páskafiðringur í nemendur og starfsmenn. Af því tilefni var efnt til skemmtilegrar uppákomu í löngu frímínútunum í skólanum í gær. Efnt var til svokallaðs Kahoot-leiks, sem er gagnvirkur spurningaleikur þar sem þátttakendur í Gryfjunni sendu inn svör við ýmsum spurningum í gegnum snjallsímana sína.
Þegar síðan upp var staðið voru reiknuð saman stig fyrir rétt svör og þau tvö sem skoruðu flest stig, Fönn Hallsdóttir og Haukur Sindri Karlsson, fengu að launum sitthvort páskaeggið. Ekki ónýtt það, svona rétt fyrir páskafríið! 
Til viðbótar hafði 30 litlum páskaeggjum verið komið fyrir út um allan skóla og verkefnið var að finna þau. "Sá á fund sem finnur", var það leiðarljós sem nemendur fylgdu. Ekki er annað vitað en að öll páskaeggin hafi fundist!