Fara í efni

Ungt fólk hvatt til að drekka vatn í stað koffíndrykkja!

Kristín Tobiasdóttir og Ólafur Göran með brúsa.
Kristín Tobiasdóttir og Ólafur Göran með brúsa.

Drekkið vatn í stað óhollari drykkja – m.a. gosdrykkja og koffínríkra drykkja! Þetta er boðskapur Ásgeirs Ólafssonar einkaþjálfara á Akureyri sem hefur ýtt úr vör verkefni sem hann kallar „Flössari“ – til mótvægis við hugtakið „Fössari“ sem samkvæmt slangurorðabókinni er föstudagur og sumir tengja við áfengisneyslu.

Að baki nafninu „Flössari“ er: Flöskudagur = föstudagur = vatnsflöskudagur = flöss = flush = skolun = vatn.

Síðustu tvo daga hafa nemendur í bæði VMA og MA fengið að gjöf vatnsbrúsa frá verkefninu „Flössari“ – og segir Ásgeir Ólafsson forvígismaður þess að hann vilji sjá æ fleiri ungmenni drekka vatn í stað óhollra og ávanabindandi drykkja. Hann segist hafa fengið kostunaraðila að verkefninu og þannig náð að fjármagna að allir nemendur framhaldsskólanna á Akureyri fái vatnsbrúsa að gjöf. Gangi verkefnið vel segist Ásgeir horfa til þess á næsta ári að víkka það út til allra framhaldsskóla landsins.

Ásgeir Ólafsson hefur sem einkaþjálfari lengi skrifað um heilbrigðan lífsstíl – hreyfingu, mataræði og fleira. Í pistli sem hann birti fyrr á þessu ári beindi hann sjónum sínum að aðgengi barna og unglinga að koffíndrykkjum, sem hann segir allar rannsóknir staðfesta að séu stórhættulegir og aðeins sé tímaspursmál hvenær valdi stórslysi hér á landi. Vísar hann m.a. til drykkja eins og Nocco og Monster sem hann segir að flæði út um samfélagið – aldrei þó eins og nú. Þessu megi líkja við faraldur og það verði hreinlega að bregðast við og snúa þessari þróun við. Þetta sé stórt vandamál sem verði að vekja athygli ungmenna og foreldra þeirra á með öllum tiltækum ráðum. Því hafi hann sjálfur ákveðið að fara af stað með þetta verkefni því hann sé einfaldlega verulega hræddur um fjölmörg íslensk ungmenni sem hafi ánetjast þessum koffíndrykkjum. Ungmenni sem geri sér enga grein fyrir að þessir drykkir séu stórhættulegir. Ásgeir segist vita um fjölmörg ungmenni sem drekki allt að þrjá og jafnvel fleiri slíka drykki á hverjum einasta degi. Slíkt geti endað með ósköpum.

Til þess að reyna að snúa þessari þróun við hafi hann ákveðið að fara þá leið til að byrja með, að gefa nemendum framhaldsskólanna á Akureyri vatnsbrúsa og hvetja þá til að fylla þá þrisvar á dag af vatni – í stað þess að drekka koffíndrykki – enda sé vatnsdrykkja miklum mun hollara fyrir líkamann og kosti ekkert – samanborið við um 400 krónur fyrir hvern orkudrykk.

„Ég lít fyrst og fremst á þetta sem samfélagsverkefni sem ég býð framhaldsskólanemum að taka þátt í á fésbókinni,“ segir Ásgeir Ólafsson.