Fara í efni

Dansklúbburinn Valkyrjurnar að hefja starfsemi

Það er alltaf ánægjulegt þegar blásið er til starfsemri nýrra klúbba í félagslífinu í skólanum. Síðastliðið vor ákváðu nokkrir nemendur sem hafa komið við sögu í félagslífinu í skólanum, m.a. í Leikfélagi VMA, að setja á stofn dansklúbb, sem fengið hefur nafnið Valkyrjurnar. Klúbburinnn var síðan formlega stofnaður núna í upphafi nýs skólaárs og stjórn hans mun hittast á fyrsta formlega fundi sínum í þessari viku og leggja línur um fyrstu skrefin og starfið í vetur.

Í stjórn Valkyrjanna eru Anna Birta Þórðardóttir formaður, Telma Marý Arinbjarnardóttir varaformaður, Kormákur Rögnvaldsson markaðsstjóri og Agnar Sigurðsson meðstjórnandi.

Anna Birta formaður segir að öll hafi þau mikinn áhuga á dansi af ýmsum toga og vilji hefja hann til vegs og virðingar í skólanum. Einnig hafi klúbbstofnendum þótt ástæða til að gera eitthvað nýtt og öðruvísi í félagslífinu og þau hafi staldrað við dansinn, enda sé hann klárlega í sókn og áhugi ungs fólks á hverskonar dansi hafi aukist. Tækifærið til þess að skella sér í dansinn sé núna. Anna Birna segir við það miðað að allir áhugasamir dansarar hittist einu sinni í viku og taki létt dansspor. Hún segir að því stefnt að fá gestakennara til þess að leiðbeina, ætlunin sé að hafa fjölbreytni að leiðarljósi.

Dansklúbburinn Valkyrjurnar mun kynna starfið eftir að stjórnin hefur hist og lagt línurnar. Bæði segir Anna Birna að hengd verði upp plaköt í skólanum og einnig verði upplýsingar veittar á instagramreikningi klúbbsins.