Fara í efni

Dans í þriðjudagsfyrirlestri

Ingunn Elísabet Hreinsdóttir.
Ingunn Elísabet Hreinsdóttir.

Í dag, þriðjudaginn 15. febrúar, kl. 17-17.40 heldur Ingunn Elísabet Hreinsdóttir, dansari og danskennari, þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Hlusta. Þar fjallar hún um nálgun sína á dansi og að hugsa með líkamanum og upplifa heildræna nálgun. Einnig ræðir hún um að hlusta á sitt innra sjálf og byggja á eigin reynslu og færni.

Ingunn Elísabet Hreinsdóttir hefur starfað sem danskennari í grunn-, framhalds- og dansskólum. Hún útskrifaðist frá Listaháskólanum í Stokkhólmi árið 2018 og lauk samhliða BEd í kennarafræðum efsta stigi frá Háskólanum á Akureyri árið 2017. Hún útskrifaðist úr meistaranámi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands 2020 og hlaut viðurkenningu frá skóla-og frístundaráði Reykjavíkurborgar fyrir meistaraverkefnið sitt, Skapandi dans: Handbók fyrir kennara, sama ár. Handbókin kom út 2021 á vef Menntamálastofnunnar. Hún hefur tekið þátt í List fyrir alla (2018 og 2019), Barnamenningarhátíð (2019) og Listasumri á Akureyri (2019, 2020). Ingunn sat í stjórn Félags íslenskra listdansara 2019-2021. 

Sem fyrr er aðgangur ókeypis á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir. Að þriðjudagsfyrirlestrunum standa Listasafnið á Akureyri, VMA, MA og Gilfélagið.