Fara í efni

Dáleiðararnir Hildur Salína og Ragnheiður

Hildur Salína og Ragnheiður.
Hildur Salína og Ragnheiður.

Síðastliðinn sunnudag brautskráðust Hildur Salína Ævarsdóttir og Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir, kennarar við VMA, sem dáleiðarar frá Dáleiðsluskóla Íslands. Það voru síður en svo samantekin ráð hjá þeim að fara í þetta nám núna á haustdögum, þær vissu ekki hvor af annarri og hittust einfaldlega í fyrstu kennslustund námskeiðisins.

Gaman er að segja frá því að fjórir af þrettán nemendum á þessu grunnnámskeiði Dáleiðsluskóla Íslands (sem er 60 kennslustundir + 40 klukkustundir í heimanámi) eru búsettir á Norðurlandi,  Hildur Salína og Ragnheiður frá Akureyri, tveir komu frá Ólafsfirði og fimmti nemandinn á námskeiðinu á sterka tengingu við Ólafsfjörð.

En hvað kom til að Hildur Salína ákvað að sækja sér þessa menntun? Hún segist lengi hafa leitt hugann að þessu námi en ekki látið verða að því að drífa sig fyrr en nú. Sjónvarpsþáttur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um Dáleiðsluskóla Íslands og viðtal við stofnanda hans, Ingiberg Þorkelsson, hafi vakið áhugann enn frekar. Hildur hefur verið dugleg við að afla sér þekkingar á hinum ýmsu sviðum til viðbótar við kennsluna sem hún starfar við í hársnyrtiiðninni í VMA. Fyrir nokkrum árum aflaði hún sér réttinda sem leiðsögumaður, á síðasta ári lauk hún námi í markþjálfun og núna var komið að dáleiðslu. Þetta var grunnnámskeið og Hildur stefnir að því að taka framhaldsnámskeið í dáleiðslu á næsta ári.

Hildur Salína dregur ekki dul á að dáleiðslunámið hafi opnað augu sín fyrir svo ótal mörgu sem hún hafi ekki leitt hugann að og enginn vafi sé á að því að þessi kunnátta muni nýtast fyrir sig sjálfa, sitt fólk og sína nemendur. Hún segir að hugtakið dáleiðsla hafi mjög þrönga merkingu í huga fólks en dáleiðsla sé afar vítt hugtak og með hana sé hægt að vinna á svo ótal mörgum sviðum til þess að bæta líðan fólks – hún sé öflugt verkfæri til þess að ná slökun og róa hugann.

Undir þetta tekur Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir. Hún er í vetur í námsleyfi og segist hafa velt því fyrir sér síðastliðið vor þegar hún fékk staðfestingu á námsleyfinu hvaða nám hún myndi velja. Niðurstaðan var að fara í grunnnámið í Dáleiðsluskóla Íslands. „Ég þekkti ekkert til dáleiðslu en langaði að prófa. Þetta hefur reynst vera góð ákvörðun, námið var bæði afskaplega fróðlegt og skemmtilegt og ég er þess fullviss að ýmislegt sem ég hef lært í náminu mun nýtast mér vel sem kennari. Ég vil í því sambandi nefna ýmislegt sem tengist kvíða hjá nemendum, sem birtist í ýmsum myndum, t.d. í aðdraganda prófa,“ segir Ragnheiður sem hefur kennt í 35 ár, þar af tuttugu ár í Hrafnagilsskóla og síðustu fimmtán ár í VMA.

„Ég er mjög ánægð með að hafa drifið mig í þetta áhugaverða nám. Þetta var skemmtileg áskorun og ólíkt öllu sem ég hef áður prófað,“ segir Ragnheiður og bætir við að hún hafi ákveðið að halda áfram á framhaldsnámskeiði Dáleiðsluskólan Íslands sem hefst síðar í þessum mánuði. „Ég ætla að einbeita mér að þessu námi núna á haustönn en svo kemur í ljós hvað ég geri eftir áramót, á síðari hluta námsleyfisins,“ segir Ragnheiður.