Fara í efni

Byggiðn færði byggingadeild góða gjöf

Heimir Kristinsson, Anna María og Helgi Valur.
Heimir Kristinsson, Anna María og Helgi Valur.

Heimir Kristinsson, varaformaður Byggiðn – félags byggingamanna, kom heldur betur færandi hendi í byggingadeild VMA í gær. Hann færði deildinni að gjöf fyrir hönd Byggiðn spjaldtölvu af gerðinni iPad Pro. Tölvan mun nýtast afar vel til kennslu í byggingadeildinni.

Með auknum tæknibúnaði er unnt að miðla upplýsingum til nemenda í hvaða námsgrein sem er á myndrænan hátt og auka þannig skilning þeirra á viðfangsefninu. Þessa dagana er byggingadeild að taka ákveðin skref í þeim efnum, unnið verður að því á næstu dögum að setja upp stóra skjái í verknámsrýmum deildarinnar og upp á þá verður hægt að varpa upplýsingum af ýmsum toga, t.d. skýringarmyndum, teikningum og myndböndum. En til þess að nýta skjáina sem best þarf  góðan tölvubúnað og segir Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingagreina í VMA, að gjöf Byggiðn til deildarinnar komi að góðum notum. Hún sé mikilvægur liður í því að taka þau skref í kennslunni í byggingadeildinni sem lengi hafi verið stefnt að. Helgi Valur og Anna María Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari, sem veittu gjöfinni viðtöku úr hendi Heimis í gær, vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til Byggiðn fyrir þessa góðu gjöf til byggingadeildarinnar. Hún sýni hlýjan hug fagfélags byggingamanna til skólans.

Heimir Kristinsson segir að Byggiðn sé stolt af því að geta lagt VMA lið með þessum hætti. Mikilvægt sé fyrir félagið að vel sé staðið að námi byggingamanna og það sé gert í byggingadeild VMA. Gleðilegt sé að eftir hrun hafi aðsókn að deildinni verið mikil og útskrifaðir hafi verið á síðustu árum fjölmargir byggingamenn í ýmsum greinum, auk húsasmíðinnar t.d. múrarar og pípulagningamenn. Ánægjulegt sé að skólinn vilji tileinka sér alla þá tækni sem í boði sé til þess að bæta kennsluna og því vilji Byggiðn leggja lið.

Heimir segir að þrátt fyrir að upplýsingar séu um slaka í hagkerfinu nú um stundir hafi það enn sem komið er ekki sýnt sig í byggingariðnaðinum á Akureyri og Norðurlandi. Fyrirtækin hafi haft næg verkefni og hann hafi ekki upplýsingar um að á næstu mánuðum verði breytingar á því að neinu marki. Þess vegna hafi byggingamenn almennt haft nóg að gera og því verði áfram þörf fyrir vel menntað fólk á þessu sviði.