Fara í efni

Búninga- og leikmyndahönnun í fyrsta þriðjudagsfyrirlestri ársins

Sigríður Sunna Reynisdóttir.
Sigríður Sunna Reynisdóttir.

Í dag, þriðjudaginn 27. febrúar kl. 16:15, heldur Sigríður Sunna Reynisdóttir, búningahönnuður, fyrsta þriðjudagsfyrirlestur ársins í Listasafninu á Akureyri. Aðgangur er ókeypis.

Sigríður Sunna hannar leikmyndina fyrir Birting, sem Menningarfélag Akureyrar setur þessa dagana upp á fjalir Samkomuhússins á Akureyri. Áður hefur hún hannað leikmyndir, búninga og leikbrúður fyrir verk á borð við Lísu í Undralandi og Litlu hryllingsbúðina fyrir Leikfélag Akureyrar, auk fjölda annarra sviðsverka í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og víðar. Í fyrirlestrinum í dag veitir hún innsýn í hönnun leikmynda og innsetninga sem eiga það sameiginlegt að reyna á ímyndunaraflið.

Sigríður Sunna Reynisdóttir er stofnandi og listrænn stjórnandi hönnunarteymisins ÞYKJÓ sem hlaut Hönnunarverðlaun Íslands árið 2024. Hún á að baki fjölbreyttan bakgrunn á sviði menningar og lista, allt frá tónlistarviðburðum, sviðslistaverkum, listahátíðum og hönnunarverkefnum til dagskrárgerðar fyrir útvarp. Rauður þráður í verkefnum hennar eru þverfagleg samsköpunarverkefni með þátttöku vísindamanna og listafólks úr ólíkum áttum.

Sem fyrr eru þriðjudagsfyrirlestrarnir samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins.