Fara í efni

Bros gerir ótrúlega mikið fyrir daginn

Ómar Kristinsson.
Ómar Kristinsson.

„Samskiptin við nemendur eru það skemmtilegasta í starfinu. Ég hef það fyrir reglu að taka öllum fagnandi og það er staðreynd að bros gerir ótrúlega mikið fyrir daginn,“ segir Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og sjúkraliðabrautar.

Þessu starfi hefur Ómar gegnt síðustu sjö ár en áður hafði hann verið kennari við skólann frá 2002 og um tíma í hlutastarfi í kennslustjórn á náttúrufræðibraut skólans. Þegar Ómar kom til starfa við VMA fyrir tuttugu árum kenndi hann  ensku og lífsleikni en hann er með BA-próf í ensku frá HÍ og einnig lauk hann diplómanámi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla. Kennsluréttindin tók hann síðan við HA á árunum 2003-2005.

Ómar orðar það svo að tilviljun hafi að mestu ráðið því að hann hafi tekið við starfi sviðsstjóra árið 2015, honum hafi líkað kennslan vel og ekki horft til þess að færa sig um set og verja vinnutímanum að stórum hluta fyrir framan tölvuskjá. En hlutirnir hafi æxlast svona og sviðsstjórastarfið sé víðtækt og fjölbreytt. Ómar segir að hann og Baldvin B. Ringsted, sviðsstjóri verknámsbrauta, vinni náið með námsráðgjöfum skólans við að aðstoða nemendur í að skipuleggja nám sitt. Eðli málsins samkvæmt þurfi margir nemendur að koma og fá leiðsögn um hvernig best sé að setja upp námið, að ákveðnum forsendum gefnum, og þannig nái hann að kynnast mörgum nemendum. „Ég man býsna mörg nöfn nemenda og þegar ég mæti þeim á göngum skólans reyni ég að ávarpa þá með nöfnum,“ segir Ómar og bætir við að hann fari oft um skólann, líti inn í kennslustundir eða taki tal af nemendum á göngunum, til þess að taka púlsinn á hinu daglega starfi. „Þessir göngutúrar um skólann eru líka ágætis afsökun fyrir því að standa annað slagið upp frá tölvunni,“ segir Ómar og brosir.

Starf sviðsstjóra er sem fyrr segir fjölbreytt og tekur til margra þátta. Sum verkefnin segir Ómar að geti tekið verulega á, sérstaklega eigi það við um mál nemenda sem eigi við ýmis persónuleg vandamál að stríða sem hafi áhrif á námsframvindu viðkomandi. „Námið er vissulega á ábyrgð hvers og eins nemanda en skólinn hefur líka skyldum að gegna og almennt reynum við að leggja öllum lið í því skyni að finna bestu leiðirnar og lausnirnar."

„Kóvidið hefur auðvitað haft mikil áhrif á bæði nemendur og okkur starfsmenn. Við erum núna á fimmtu önninni í heimsfaraldri og að sjálfsögðu hefur þetta haft mikil áhrif. Ég hef samanburðinn í þessu starfi fyrir og eftir að kóvid byrjaði og mér er óhætt að segja að það hafa fleiri nemendur glímt við kvíða eftir að kóvidfaraldurinn skall á. Þetta helgast til dæmis af umræðunni í samfélaginu um faraldurinn, sóttkví og einangrun,“ segir Ómar.

Ómar tók stúdentspróf frá MA 1995 og fór í kjölfarið í HÍ og lærði ensku og hagnýta fjölmiðlun, sem fyrr greinir. Hann hellti sér í blaðamennsku á DV, skrifaði um íþróttir í DV-Sport í Reykjavík og hélt áfram þeim skrifum eftir að hafa flutt aftur norður, auk almennra frétta. Starfið var síðan lagt niður og Ómar hafði verið í nokkrar vikur án atvinnu þegar honum bauðst að koma til starfa í VMA árið 2002.

Íþróttaskrifin í DV komu ekki á óvart því íþróttaáhuginn var sannarlega til staðar. Ómar segist hafa stundað handbolta, fótbolta og frjálsar forðum daga.

Þegar hann var að vaxa úr grasi buðu íþróttafélögin á Akureyri ekki upp á frjálsar en frjálsíþróttaæfingar voru hins vegar hjá aðildarfélögum UMSE í nágrenni Akureyrar. Ómar gekk til liðs við Æskuna á Svalbarðsströnd og síðar æfði hann og keppti fyrir Samherja í Eyjafjarðarsveit. Gagnagrunnur Frjálsíþróttasambandsins staðfestir að Ómar náði mjög góðum árangri frá 1991-1998. Í 100 m hlaupi á hann fjórða besta tíma innan vébanda Ungmennasambands Eyjafjarðar - UMSE, þriðja besta í 200 m, annan besta tímann í 400 m, sjöunda besta í 800 m, fimmta besta í 1000 m, sjöunda besta í 400 m grindahlaupi, fjórða lengsta kastið í spjótkasti, áttunda lengsta kastið í kúluvarpi og sjöunda besta árangurinn í tugþraut.