Fara í efni

Vann til bronsverðlauna á Evrópumótinu í hópfimleikum

Gísli Már Þórðarsson með bronsverðlaunin sín.
Gísli Már Þórðarsson með bronsverðlaunin sín.

„Ég viðurkenni alveg að fyrir mótið var ég nokkuð stressaður en þegar við vorum komin á mótsstað og farin að undirbúa okkur fyrir sjálfa keppnina fann ég ekki fyrir stressi. Þetta gekk bara mjög vel,“ segir Gísli Már Þórðarson, bronsverðlaunahafi í hópfimleikum á Evrópumótinu í Portúgal og nemandi í grunndeild málmiðnaðar í VMA.

Árangur Íslands á Evrópumótinu í hópfimleikum í síðustu viku fer í sögubækurnar. Ísland sendi fjögur lið til keppni og öll komust þau á verðlaunapall; kvennaliðið varð Evrópumeistari, bæði karlaliðið og stúlknaliðið unnu til silfurverðlauna og blandað unglingalið, sem Gísli Már var hluti af, vann til bronsverðlauna.

Það sem gerir þennan árangur Gísla Más og kollega hans í liðinu frá Akureyri, Jóhanns Gunnars Finnssonar, sem er nemandi í MA, svo magnaðan er að þetta var í fyrsta skipti sem þeir kepptu í hópfimleikum. Ekki ónýtt að vinna til bronsverðlauna í fyrsta stórmótinu! Gísli Már segir að óneitanlega hafi verið nokkuð snúið að undirbúa sig fyrir Evrópumótið því allir aðrir í liðinu séu fyrir sunnan og því hafi æfingarnar verið þar. Þess vegna hafi fyrirkomulagið verið þannig í margar vikur fyrir mótið að hann hafi farið suður á fimmtudögum og verið fram á þriðjudag á stífum æfingum. „Ég náði þremur dögum í viku í VMA á meðan á þessum æfingum stóð,“ segir Gísli Már.

Þó svo að hópfimleikarnir séu nýir fyrir Gísla hefur hann æft áhaldafimleika hjá Fimleikafélagi Akureyrar undanfarin tólf ár. Þegar honum bauðst að koma inn í hópfimleikana sló hann ekki hendi á móti því, þetta hafi verið ný áskorun sem hann langaði til þess að takast á við. Og árangurinn á Evrópumótinu í Portúgal hefur auðvitað síður en svo dregið úr áhuganum. Nú er bara strax farið að horfa til næsta Evrópumóts sem Gísli Rafn segir að muni fara fram í september á næsta ári og því verði stífar æfingar í sumar og hann þurfi þá ekki að fá leyfi frá skólanum í jafn ríkum mæli og núna. Grunndeild málmiðnaðar lýkur Gísli Rafn næsta vor og stefnir á vélstjórnarnám í framhaldinu.

Gísli Rafn kom til Akureyrar sl. mánudag. Í gær fór hann aftur suður til þess að taka þátt í móttöku sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, efndi til í Safnahúsinu við Hverfisgötu til heiðurs fimleikafólkinu. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur og fagnaði árangri fimleikafólksins. Gísli Rafn kemur aftur norður í dag og við tekur síðasta verkefnið fyrir jól, að ljúka annarprófunum í VMA. 

„Þetta var stórkostleg upplifun, ég hef eignast fullt af nýjum vinum og það var frábært að fá tækifæri til að æfa og keppa með liðinu. Sem nýliði var maður óneitanlega svolítið hræddur við að gera mistök en liðsfélagarnir miðluðu af sinni reynslu og leiðbeindu okkur nýliðunum í gegnum þetta,“ segir Gísli Rafn.