Fara í efni

Breytt hugarfar og aukinn þroski

Heba Karín Sigþórsdóttir.
Heba Karín Sigþórsdóttir.

Heba Karín Sigþórsdóttir er 24 ára Akureyringur sem er komin aftur á skólabekk í VMA eftir nokkurt hlé. Hún segist á sínum tíma hafa haft takmarkaðan áhuga á að læra en núna sé hún þroskaðri og hafi meiri metnað og áhuga á að standa sig í náminu. Henni reiknist til að hún eigi eftir um fimmtíu einingar til stúdentsprófs.

„Ég fór í MA haustið 2007 en skipti yfir í VMA haustið 2008. Ég var þá í hálft annað ár á listnámsbraut en hætti og kom síðan aftur og fór á félagsfræðabraut. Hætti aftur og er núna komin í þriðja skiptið í VMA og er að þessu sinni ákveðin í að ljúka stúdentsprófi af félags- og hugvísindabraut,“ segir Heba.

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að drífa mig aftur í skóla er breytt hugarfar og aukinn þroski. Núna er ég í skóla fyrir mig sjálfa,“ segir Heba. Hún segir ekkert launungarmál að það sé töluvert átak, ekki síst fjárhagslega, að rífa sig upp úr fastri vinnu til þess að setjast á skólabekk. Eftir sem áður þurfi að greiða húsaleigu og annan kostnað sem til fellur. Til þess að ná endum saman hafi hún í hyggju að vinna í hlutastarfi með skólanum en nú verði námið sett í fyrsta sæti. „Ég hef ekkert ákveðið hvað ég geri í framhaldinu en númer eitt er að ljúka stúdentsprófinu og síðan verður að sjá hvað tekur við eftir það. Ég er í þremur áföngum á þessari önn, svona hæfilega miklu, á meðan ég er að koma mér aftur af stað,“ segir Heba.