Fara í efni

Brautskráningarnemendur listnáms- og hönnunarbrautar sýna í Ketilhúsinu

Nemendurnir sem sýna verk sín í Ketilhúsinu.
Nemendurnir sem sýna verk sín í Ketilhúsinu.

Á morgun, laugardaginn 25. nóvember, kl. 15:00 verður opnuð sýning brautskráningarnemenda listnáms- og hönnunarbrautar VMA í Ketilhúsinu á Akureyri. Fimmtán nemendur sýna verk sín á sýningunni, sem hafa bæði stundað nám á myndlistarlínu og textíllínu.

Eins og áður á sambærilegum sýningum eru verk brautskráningarnemanna afar fjölbreytt og bera vitni ríku hugmyndaauðgi nemenda. Eftirtaldir nemendur eru með verk á sýningunni: Agnes Ísól Friðriksdóttir, Axel Frans Gústavsson, Bjarki Rúnar Sigurðsson, Indíana Líf Ingvadóttir, Kári Ármannsson, Líf Sigurðardóttir, Magnús Amadeus Guðmundsson, Margrét Brá Jónasdóttir, Marian Rivera Hreinsdóttir, Viktor Jort Hollanders, Össur Hafþórsson, Andrea Ósk Margrétardóttir, Elísa Ýrr Erlendsdóttir, Hugrún Eir Aðalgeirsdóttir og Victoria Rachel Zamora.

Einn af útskriftarnemunum, Kári Ármannsson, gerði þetta auglýsingaspjald í tilefni af sýningunni.

Nemendur fá eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð. Þetta er þriðja árið í röð sem sýning brautskráningarnema er haldin í samstarfi við Listasafnið á Akureyri.

Útskriftarsýningin stendur til 3. desember og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17.

Hér að neðan er lýsing útskriftarnemanna fimmtán á verkum sínum á sýningunni:

Agnes Ísól Friðriksdóttir

You never think

I put these words in the background that you can’t really see anymore. Words that really describe my painting. “You never think that the last time is the last time. You think you have more. You think you have forever. But you don’t”

 

Andrea Ósk Margrétardóttir

Flirt

Hátíska og ‘’wearable art’’ hafa alltaf heillað mig og lýsa þau hugtök hugmyndinni að mínu verki ágætlega. Ég leyfði þessu verkefni svolítið að leiða sig sjálft og komst sjálf að útkomunni undir lokin. Línan er innblásin af "collage" mynd sem ég gerði í flýti og endaði því með skrítnum og óhefðbundum formum sem ég þróaði svo eins og sjá má í buxunum.

 

Axel Frans Gústavsson

EXTROSPECTION

Verkið er innsetning, sambland af skjáverki, hljóðverki og tvívíddarverki. Meiningin var að rannsaka og gera tilraun á lagaskiptingu í óhlutbundinni mynd og varpa á hlutbundinn grunn. Samspil milli svart-hvíts og lita er augljóst, ásamt skýrleika og óskýrleika. Veruleiki okkar er stanslaust á hreyfingu og þess vegna datt mér í hug að nota þessar aðferðir til að skapa sjálfsmynd.

 

Bjarki Rúnar Sigurðsson

Arietes

Hreindýrið mitt Arietes er skúlptúrinn minn sem ég lét falla inn í umhverfið mitt. Verkið er tilvísun í okkur - lífverurnar á jörðinni

 

Elísa Ýrr Erlendsdóttir

Time out

Hugmyndin er að láta ekki tímann stjórna okkur, þ.e.a.s raftækjanotkun og hraðann í samfélaginu, heldur að stoppa, lifa í núinu og rækta þann tíma sem maður þarf að eiga með sjálfum sér.

 

Hugrún Eir Aðalgeirsdóttir

Little Pretty

Í lokaverkefninu vildi ég hanna fatnað fyrir dóttur mína, ég var í tíma þegar ég fékk innblástur af lokaverkefninu. Mér datt í hug að hanna eitthvað sem myndi passa við “old-glamour” tímabilið sem er um 1930, en það þurfti að vera eitthvað sem væri klæðilegt fyrir börn. Ég vildi notast við náttúruleg efni. Pelsinn er úr kanínuskinni, fóðrið er úr silki og kjóllinn er líka úr silki.

 

Indíana Líf Ingvadóttir

Censored

Ég ákvað að mála þessa mynd því að ég er búin að vera að vinna með þessa hugmynd í skissubók í haust og langaði að gera lokaútfærslu á henni.

 

Kári Ármannsson

Slippery Slope

Verkið mitt er í raun hönnun, ég teiknaði upp og skissaði nútímalegt einbýlishús sem nýtir pláss vel og er með skemmtileg hönnunaratriði.

 

Líf Sigurðardóttir

Hræðsla/Fear

Verkið mitt er innblásið af tvennu sem ég hræðist mest, að drukkna og brenna. Verkið er gert mestmegnis úr pappamassa, hænsnaneti og akrílmálningu. Ég vildi gera verk sem ég myndi læra mikið af í vinnuferlinu. Þannig að ég væri að ögra mér með aðferðir og ýta mér áfram þar til að ég kláraði.

 

Magnús Amadeus Guðmundsson

Á milli lífs og dauða

Verkið er mín hugmynd um líf og dauða sem persónur. Hugmyndin kom til mín þegar ég sat í heimspeki og þá var talað um hvenær við í rauninni deyjum. Verkið skiptist í ljóð og málverk sem sýnir smá hugmynd mína á túlkun þessara afla.

 

Margrét Brá Jónasdóttir

“Minningar”

Verkið sem ég gerði eru minningar úr æsku minni eins og ég man eftir þeim. Full af ímyndunarafli og öðru sjónarhorni. Hlutirnir sem eru fyrir framan hverja mynd tengja minningarnar við raunveruleikann.

 

Marian Rivera Hreinsdóttir

“celos”

Ég valdi lokaverkefnið mitt að vera málverk sem fjallar um afbrýðisemi (Celos, á spænsku). Ég fékk innblásturinn á eigin reynslu, þegar ég var yngri upplifði ég mína verstu afbrýðisemi. Ég datt í þunglyndi og uppgötvaði margar slæmar tilfinningar bak við það. En á endanum með hjálp frá ástvinum náði ég að rísa upp og uppgötvaði að fyrir mér er afbrýðisemi veikleiki í heila mannsins sem við ættum ekki að leyfa að stjórna okkur og draga okkur niður.

 

Victoria Rachel Zamora

“Vetrarósir”

Ég ákvað að sauma vegna þess að ég hef áhuga á að hanna föt og langar að gera hugmyndir mínar að veruleika. Innblásturinn minn voru rósir sem ég var búin að vinna með á síðustu önn og líka minn eigin fatastíll. Ég er ótrúlega ánægð með lokaútkomuna og það er gaman að fá góð viðbrögð frá almenningi.

 

Viktor Hollanders

Andy Lecker

Í verkinu skoða ég yfirborðskennd hugmyndafræðilegrar listar og frægð og þau áhrif sem hún hefur á list.

 

Össur Hafþórsson

KLAKI

Þetta er tónlistarmyndband við lag eftir tvo félaga mína, Pétur Trausta og Dag. Ég leikstýrði myndbandinu, en var einnig staddur við gerð lagsins. Ég fékk hugmyndina að myndbandinu eftir að hafa hlustað bara nokkrum sinnum á lagið og varð lokaverkið nánast eins og þegar ég hugsaði mér það fyrst