Fara í efni

Brautabrúarnemendur í Fab Lab

Afrakstur nemendaverkefnis í Fab Lab.
Afrakstur nemendaverkefnis í Fab Lab.

Fastur liður í námi nemenda á brautabrú VMA á haustönn – sinni fyrstu önn í VMA – er að taka nokkra tíma á nokkrum af verknámsbrautum skólans og kynna sér hvað þær hafi upp á að bjóða og um leið að þrengja námsvalið í framhaldinu. Þetta fyrirkomulag hefur í gegnum árin gefist afar vel og margir nemendur sem hafa verið óvissir þegar þeir komu í skólann að hausti hvar áhugasvið þeirra er hafa fundið sína fjöl með þessum námskynningum.

Auk þess að fara inn á verknámsbrautirnar hafa brautabrúarnemendur kynnt sér Fab Lab smiðjuna, sem er til húsa í VMA, og fengið sýn á og prófað sig áfram með hvernig hugmynd í tölvu verður að hlut. Íris Ragnarsdóttir kennari segir ánægjulegt að sjá hversu opnir nemendur séu fyrir þeim möguleikum sem Fab Lab smiðjan bjóði upp á. Sumir óttist þetta umhverfi í fyrstu en þegar nemendur átti sig á því hvernig þessi tækni virkar og hvaða möguleika hún býður upp á sé oft erfitt að fá nemendur út. Þessar myndir voru teknar af brautabrúarnemendum í Fab Lab í síðustu viku.

Jón Þór Sigurðsson verkefnastjóri Fab Lab Akureyri segir að nýtingin á smiðjunni að undanförnu hafi verið mjög góð. Á morgnana eru skólarnir með tíma, eftir klukkan þrjú eru opnir tímar og þá getur hver sem er komið og nýtt sér aðstöðuna og á kvöldin eru síðan námskeið. Á vegum SÍMEY hafa verið prýðilega sótt námskeið.