Fara í efni

Bræður í stálsmíði

Bræðurnir Jóhann (t.v.) og Guðmundur.
Bræðurnir Jóhann (t.v.) og Guðmundur.
Hálfbræðurnir og Akureyringarnir Guðmundur Aðalsteinsson og Jóhann Sigurðsson stunda báðir nám í stálsmíði í málmiðnaðardeild VMA. Og báðir hafa þeir lengi starfað í Slippnum Akureyri. Þeir eiga það sameiginlegt að framhaldsskólanám var ekki efst á vinsældalista þeirra að loknum grunnskóla. En nú eru þeir bræður eldri og lífsreyndari og skólabekkurinn finnst þeim mun áhugaverðari og skemmtilegri en á árum áður.

Hálfbræðurnir og Akureyringarnir Guðmundur Aðalsteinsson og Jóhann Sigurðsson stunda báðir nám í stálsmíði í málmiðnaðardeild VMA. Og báðir hafa þeir lengi starfað í Slippnum Akureyri. Þeir eiga það sameiginlegt að framhaldsskólanám var ekki efst á vinsældalista þeirra að loknum grunnskóla. En nú eru þeir bræður eldri og lífsreyndari og skólabekkurinn finnst þeim mun áhugaverðari og skemmtilegri en á árum áður.

„Ég hætti í skóla eftir tíunda bekk og hafði engan áhuga á því að fara í framhaldsskóla,“ rifjar Guðmundur, eldri bróðirinn upp, en hann er 33ja ára. Jóhann bróðir hans, sem er að verða 26 ára, segist hafa farið í VMA 16 ára gamall og ætlað sér að verða bifvélavirki. Þær fyrirætlanir hafi síðan tekið töluverða u-beygju. „Pabbi vann á þessum tíma í Slippnum og það má segja að hann hafi troðið mér inn í ryðfríu deildina. Sem betur fer fór ég ekki í bifvélavirkjunina, það hefði ekki átt við mig,“ segir Jóhann.

„Eftir tíunda bekkinn fór ég að vinna við ýmislegt – var um tíma í kavíarnum í Strýtu, í ýmsum störfum í Vífilfelli og fékk síðan vinnu í DNG skömmu áður en að það fyrirtæki sameinaðist Slippnum. Það má eiginlega segja að ég hafi svolítið lent milli stafns og hurðar í þessu og í framhaldinu fór ég til Antons Benjamíns í Slippnum og spurði hann hvort ekki vantaði mann í stálsmíðadeildina. Hann tók mér vel og vinnuna fékk ég. Um tíma vann ég á lagernum í Slippnum en frá 2008 hef ég verið í stálsmíðinni. Ég fór á samning hjá Slippnum og tók fyrstu tvær annirnar hér í fjarnámi. Þetta er sem sagt sjötta önnin hér og ég stefni að því að ljúka náminu um næstu áramót. Núna er ég í fullu námi og einbeiti mér að því,“ segir Guðmundur.

„Ég var um tíma í verkamannavinnu í Slippnum og fannst það satt best að segja ekkert sérstaklega skemmtilegt til lengdar. Pabbi spurði mig þá af hverju ég færi ekki bara í að læra þetta fag. Það varð úr og ég vann í um þrjú ár í ryðfríu deildinni.  Pabbi flutti síðan til Noregs og hann hafði verið þar í um eitt ár þegar ég fór út og heimsótti hann. Úr varð að ég starfaði þar í tæpt ár  - rétt hjá Kongsvinger. Þarna var ég fyrst og fremst að vinna, drullugur upp fyrir haus frá morgni til kvölds. Mér fannst ég fá töluvert mikið í laun, en þau voru fljót að gufa upp, enda er mjög dýrt að lifa í Noregi. Á þessum tíma horfði ég öfundaraugum til félaganna heima á Akureyri að vinna rólega og þrifalega innivinnu. Ég ákvað því að fara heim, fékk vinnu í Rúmfatalagernum og var þar í um eitt ár. Komst að raun um að þessi innivera átti ekki við mig. Fór því til Tona í Slippnum og spurði hann hvort ég gæti mögulega fengið aftur vinnu þar. Sem ég fékk strax og fyrir það er ég þakklátur. Eftir að hafa farið einn stóran hring og vera mun lífsreyndari á allan hátt er ég mjög sáttur við það sem ég er að gera í dag. Ég er að klára verklega hlutann í náminu en á eftir nokkur bókleg fög. Er núna í 21 einingu og einbeiti mér að náminu,“ segir Jóhann.

„Í dag er viðhorfið allt annað en í gamla daga. Núna er ég í skóla fyrir sjálfan mig og sætti mig ekki við lágar einkunnir. Eftir margra ára skólauppihald hélt ég að þetta yrði mér um megn, en það reyndist ekki vera svo. Þetta er fyrst og fremst skemmtilegt og ég get ekki neitað því að það er freistandi að halda áfram námi. Ég hef til dæmis velt því fyrir mér að fara í meistarann, en það á eftir að koma í ljós hvort af því verður. Vissulega er ég eins og öldungur hér við hliðina á ungu strákunum, en það er bara skemmtilegt og truflar mig ekkert. Stálsmíðin átti í vök að verjast fyrir hrun, en þessi grein hefur eflst í kjölfar hrunsins og tækifærin eru mörg. Það voru kannski 2-3 í stálsmíði hér í VMA þegar niðursveiflan var sem mest, en núna erum við sjö,“ segir Guðmundur.

„Það er bara gríðarlegur bónus að við bræðurnir séum í þessu námi á sama tíma. Það er enginn metingur á milli okkar, miklu frekar styðjum við hvor annan dygglega í náminu,“ segir Jóhann Sigurðsson.

oskarthor@vma.is