Fara í efni

Boxið: VMA fékk verðlaun fyrir lausnir á tveimur þrautum

VMA-nemar í úrslitakeppni Boxins. Mynd: MBL.
VMA-nemar í úrslitakeppni Boxins. Mynd: MBL.

„Þetta var mjög skemmtilegt en lúmskt erfitt. Það kom sér vel að bakgrunnur okkar er ólíkur og við komum úr ýmsum áttum,“ segir Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir, ein fimmmenninganna sem keppti fyrir hönd VMA í úrslitakeppni Boxins – framkvæmdakeppni framhaldsskólanna um síðustu helgi. Fulltrúar VMA stóðu sig mjög vel og fengu verðlaun fyrir góðar lausnir á tveimur þrautum í keppninni.

Auk Sigurbjargar Örnu, sem er á náttúrfufræðibraut skólans, voru í keppnisliði VMA þeir Haukur Smári Sigurðsson, viðskipta- og hagfræðibraut, Stefán Jón Pétursson vélstjórnarbraut, Ásgeir Sigurðsson vélstjórnarbraut og Steinþór Baldursson listnámsbraut.

VMA var einn átta skóla í úrslitum keppninnar. Menntaskólinn í Reykjavík sigraði keppnina í ár, sem samanstóð af átta þrautum sem keppendur þurftu að leysa. Fyrir tvær af þessum þrautum fékk VMA sérstök verðlaun, annars vegar sem kom frá Héðni hf. og hins vegar frá Íslenskum aðalverktökum.

Auk VMA vor í úrslitum í Boxinu í ár Mennta­skól­inn á Ak­ur­eyri, Mennta­skól­inn í Reykja­vík, Fram­halds­skól­inn í Vest­manna­eyj­um, Flens­borg­ar­skóli, Kvenna­skól­inn í Reykja­vík, Mennta­skól­inn við Sund og Fjöl­brauta­skóli Suður­lands.

Boxið var nú haldið í fjórða sinn en að því standa Sam­tök iðnaðar­ins, Há­skól­inn í Reykja­vík og Sam­band ís­lenskra fram­halds­skóla­nema. Mark­mið með keppn­inni er að kynna og vekja áhuga á tækni, verk- og tækni­námi og störf­um í iðnaði.