Fara í efni

Borov - ný bók eftir Hálfdán Örnólfsson

Hálfdán Örnólfsson kennari og sagnamaður.
Hálfdán Örnólfsson kennari og sagnamaður.

Borov er nafn á splunkunýrri bók sem Hálfdán Örnólfsson, kennari við VMA, hefur skrifað og gefur út. Áður hefur hann sent frá sér tvö smásagnahefti en í þessari bók, sem er í kiljuformi og er 87 bls. löng, skrifar Hálfdán eina samfellda sögu.

Nafn bókarinnar er rússneska útgáfan af Göltur, fjallinu við utanverðan Súgandafjörð. Hér koma Rússar mjög við sögu, eins og kemur skýrt fram í texta um efni bókarinnar á bakhlið hennar: „Það er hart í ári en stjórnvöld sjá þá leið út úr bráðasta vandanum að selja rússneskum auðkýfingum Súgandafjörð ásamt nágrannavíkum. Í beinu framhaldi er Eiríki Hálfdánarsyni, umboðsmanni framliðinna, fengið vandasamt verkefni. Hann hefst þegar handa en atburðir taka óvænta stefnu…“

Fyrri bækur Hálfdáns hétu Þrjár sögur og Heilsurækt og mannamein. Í báðum þessum bókum kemur Súgandafjörður við sögu, eins og þessari nýju bók, en munurinn er sá að í fyrri bókum er skyggnst til fortíðar en Borov er framtíðarsinfónía, á að gerast árið 2028.

„En það er samt ákveðin endurvinnsla á persónum úr hinum sögunum, eins og hægt er,“ segir Hálfdán. „Þetta er algjör spuni og gengur út á það að í fjárhagskröggum ákveða menn að selja rússneskum auðkýfingum Súgandafjörð. Tengingin er kannski áhugi og kaup erlenda auðmanna á íslenskum landssvæðum, samanber kaup Jim Ratcliffe á landi á norðausturhorni landsins. En hér er ekki neinn ákveðinn boðskapur og engir dómar felldir, þetta er fyrst og fremst spuni. Við höfum haft auð rússneskra peningamanna fyrir augum hér við land á undanförnum árum, m.a. hér í Eyjafirði, í formi skemmtisnekkja, og því lá beint við að Rússar keyptu Súgandafjörð.“

Hálfdán þekkir Súgandafjörð vel. Síðasta sumar hafi hann m.a. gengið á Gölt og áður hafði hann gengið víðar á þessum slóðum og kynnt sér vel sögusviðið. Rætur Hálfdáns, í það minnsta hluti þeirra, eru á þessu svæði. Langamma hans var að mestu alin upp í Skálavík, sem er ekki langt fyrir norðan Súgandafjörð og faðir hennar, langalangafi Hálfdáns, sem hét Níels Níelsson, bjó í Keflavík, sem er önnur vík á þessum slóðum, og faðir hans, Níels Jónsson, og Kristín kona hans bjuggu á Gelti. „Sem sagt; mitt fólk bjó á þessum slóðum, beggja megin við Gölt, í gamla daga. Mér finnst gaman til þess að hugsa þegar ég fer um þetta svæði að þarna hafi forfeður mínir búið,“ segir Hálfdán.

Þá er ekki eftir neinu að bíða með að eignast eintak af Borov. Hálfdán er í senn söguskrifari, útgefandi og sölumaður bókarinnar.