Fara í efni

Bókasafnsdagurinn 2016 í dag

Bókasafnsdagurinn 2016 “Lestur er bestur - út fyrir endimörk alheimsins" er í dag.  Bókasafnsdagurinn er haldinn á alþjóðlegum degi læsis í dag, 8. september. Sameinuðu þjóðirnar gerðu þennan dag að alþjóðadegi læsis árið 1965. Á þessum degi er fólk um allan heim hvatt til þess að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota tungumálið til ánægjulegra samskipta.

Á Bókasafnsdeginum 2016 vilja bókaverðirnir á bókasafni VMA, Sirrý og Hildur, vekja athygli á safninu og þeim möguleikum sem starfsemin býður upp á og nýtist bæði nemendum og kennurum skólans. Safnkostur bókasafns VMA samanstendur af bókum, tímaritum, dagblöðum og geisladiskum sem endurspegla fjölbreytt starfssvið skólans. Á safninu má finna prentara með skanna, plöstunarvél, þrjár borðtölvur fyrir nemendur, lesbretti til útláns og talgervil sem er eingöngu lánaður innan skólans. Safnið hýsir einnig vinnuaðstöðu fyrir nemendur sem nýtast bæði í einstaklings- og hópavinnu og lesstofu fyrir þá sem vilja meira næði og rólegheit.

Rétt er að vekja á því athygli að við inngang safnsins  er jafnan í gangi bókamarkaður þar sem má gera góð kaup á bókum sem bókasafnið telur sig ekki hafa not fyrir.