Fara í efni

Boðið upp á heilsufarsmælingar í VMA í dag

Blóðsykur og -þrýstingur verður mældur.
Blóðsykur og -þrýstingur verður mældur.

Í dag, þriðjudaginn 12. febrúar, verður efnt til svokallaðs GoRed dags í VMA þar sem nemendum og starfsfólki skólans verður boðið upp á heilsufarsmælingar - mældur verður blóðþrýstingur og blóðsykur. Konur eru sérstaklega hvattar til þátttöku en GoRed er þekkt í Bandaríkjunum og vísar til átaks þar í landi til að fræða konur um áhrifaþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma. Hér á landi sem og víða annars staðar í hinum vestræna heimi eru hjarta- og æðasjúkdómar algengasta dánarorsök kvenna.

Þó svo að GoRed vísi fyrst og fremst til átaks í að hvetja konur til þess að fylgjast vel með blóðsykri og blóðþrýstingi skal það undirstrikað að allir nemendur og starfsmenn VMA eru eindregið hvattir til þess að nýta sér þessa endurgjaldslausu þjónustu. Fyrir bæði unga og þá sem eldri eru er það mikið og nauðsynlegt öryggismál að fylgjast vel með því að blóðsykurinn og blóðþrýstingurinn sé í réttu horfi.

Þetta átak er haldið í samvinnu sjúkraliðabrautar VMA, Háskólans á Akureyri (hjúkrunarfræðinemar í HA koma í skólann og mæla) og Hjartaverndar Norðurlands. Mælingarnar verða í stofu C-09 kl. 09:30 - 13:30.