Fara í efni

Boðið til Star Trek áhorfs í dag á alþjóðlega Star Trek deginum

Star Trek dagurinn í VMA í dag, 6. september.
Star Trek dagurinn í VMA í dag, 6. september.

Í dag er hinn alþjóðlegi dagur Star Trek og því er auðvitað fagnað víða um heim, þar á meðal hér í VMA. Í tilefni dagsins stendur hópur Star Trek áhangenda í skólanum fyrir maraþonhorfi á Lower Decks, einni af mörgum Star Trek þáttaröðum sem hafa verið framleiddar. Nemendum jafnt sem starfsfólki er velkomið að slást í hópinn - hvenær sem er í dag frá kl. 08:30 til 12:30 - og gleyma sér um stund í raunveruleikaheimi Star Trek myndanna.

En hvað er Star Trek og af hverju er 8. september hinn alþjóðlegi dagur þessara vinsælu sjónvarpsþáttaraða? Ástæðan er einföld; þann 8. september 1966 kom fyrsta Star Trek serían fram á sjónvarsviðið í bandarísku sjónvarpi. Síðan eru liðin 57 ár og enn er verið að framleiða nýjar Star Trek seríur.

Star Trek er vísindaskáldskapur sem hefur verið settur fram í mörg hundruð bókum, fast að eitt þúsund sjónvarpsþáttum og fjölda kvikmynda. Þetta er endalaus heimur vísindaskáldskapar sem byggir upphaflega á hugmyndum Bandaríkjamannsins Genes Roddenberry. En síðan eru liðin á sjötta tug ára og Star Trek hefur farið í allar áttir og átt sitt sjálfstæða framhaldslif sem ekki sér fyrir endann á.

Urður María Sigurðardóttir kennari er ein þeirra sem stendur fyrir þessum Star Trek viðburði í dag. Hún segir að á síðasta skólaári hafi verið stofnað Star Trek félag starfsfólks VMA. Þá hafi nokkrir kennarar fundið út að þeir deildu áhuga á Star Trek þáttaröðunum og öðru Star Trek efni.

Urður María segir að Star Trek hafi verið leiðandi í vísindaskáldsöguheiminum í tugi ára og haft ómæld hrif á ótal marga, aukið áhuga á vísindum og uppfinningum. Star Trek hafi líka verið þekkt fyrir að fjalla um ýmis samfélagsleg mál eins og t.d. kyn, kynhneigð, græðgi, dauðarefsingar, þjóðerni, húðlit, fatlanir, réttarkerfi, hefðir/framþróun og fjármál í víðum skilningi.