Fara í efni

Blóðbankinn í leit að nýjum blóðgjöfum í VMA

Það er alltaf mikil þörf fyrir nýja blóðgjafa.
Það er alltaf mikil þörf fyrir nýja blóðgjafa.

 

Í dag kl. 11:30 til 13:00 verða fulltrúar frá Blóðbankanum í Gryfjunni í leit að nýjum blóðgjöfum. Einnig verða sjúkraliðanemar í Gryfjunni og bjóða upp á mælingu á blóðþrýstingi og blóðsykri. Þetta er huti af þemadögum í VMA í þessari viku sem eru tileinkaðir heilsueflandi framhaldsskóla.

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum að afar mikilvægt er fyrir Blóðbankann að fjölga blóðgjöfum og ekki síst vill bankinn fá ungt og heilsuhraust fólk til þess að gefa blóð. Íslendingum fjölgar og vegna sívaxandi ferðamannastraums til landsins eru nú mun fleiri á landinu á degi hverjum en voru fyrir nokkrum árum síðar. Sem aftur þýðir að stóraukin þörf er fyrir blóð til þess að grípa til ef eitthvað ber út af. Blóðbankinn hefur að undanförnu verið á ferð í framhaldsskólum landsins í leit að nýjum blóðgjöfum og nú er komið að VMA. Full ástæða er til þess að hvetja nemendur VMA til þess að bregðast vel við og hitta fulltrúa Blóðbankans að máli í Gryfjunni í dag, gefa blóð og skrá sig sem blóðgjafa.

Á heimasíðu Blóðbankans segir m.a. eftirfarandi um starfsemi Blóðbankans, sem er bæði með starfsemi í Reykjavík og á Sjúkrahúsinu á Akureyri:

Hlutverk Blóðbankans er að veita örugga blóðbankaþjónustu á landsvísu.

Einnig veitir Blóðbankinn þjónustu vegna fruma og vefja, líffæraflutninga og stofnfrumumeðferðar.

Blóðbankinn stuðlar að nýjungum og framförum með kennslu og rannsóknum á sínu starfssviði og með samstarfi við erlenda og innlenda aðila.

Blóðbankinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi kynningu og fræðslu til almennings og blóðgjafa um blóðbankastarfsemi.

Og ekki síður er ástæða til að hvetja nemendur til þess að nýta sér að fara í blóðþrýstings- og blóðsykursmælingu hjá sjúkraliðanemum.