Fara í efni

Blikkkassi er fyrsta skrefið

Hörður fer yfir málin með nemendum.
Hörður fer yfir málin með nemendum.

Nemendur sem ætla að læra málmsmíði, t.d. stál- og blikksmíði, og véltæknigreinar; bifvélavirkjun, vélvirkjun eða vélstjórn, þurfa fyrst að hafa lokið grunndeild málm- og véltæknigreina, sem er tvær annir.

Þegar litið var inn í kennslurými málmiðngreina var Hörður Óskarsson brautarstjóri að kenna grunndeildarnemum smíði á litlum verkfærakössum úr blikki. Þetta er jafnan fyrsta verkefni nemenda á fyrstu önninni og þjálfar þá vel í nákvæmni, notkun handverkfæra og mörgum fleiri grunnþáttum.

Í málmsmíði eins og svo mörgu öðru eru millimetrar eða brot úr millimetra það sem oft gerir gæfumuninn og því er mikilvægt frá byrjun að nemendur temji sér nákvæmni og vönduð vinnubrögð.

Öryggismálin er einnig annar stór þáttur í náminu á fyrstu önninni. Nemendur í grunndeildinni feta sig stig af stigi í flóknari hluti og vinna hlutina með ýmsum vélbúnaði sem getur reynst varasamur ef ekki er fyllstu varúðar gætt. Þess vegna undirstrika kennarar aftur og aftur hversu mikilvægur öryggisþátturinn er.