Besta jólapeysuauglýsingin 2025
Ómissandi þáttur í aðdraganda jóla í VMA er árleg samkeppni 1. árs nema í upplýsingatækniáfanga á sérnáms- og starfsbrautum um bestu jólapeysuauglýsinguna.
Í þessum áfanga er eitt og annað kennt, meðal annars hvernig unnt er í myndvinnsluforritum að setja upp plaköt og auglýsingar. Sú hefð hefur komist á að nemendur útbúa auglýsingar í tilefni af árlegum jólapeysudegi sem verður að þessu sinni í VMA nk. fimmtudag, 4. desember. Að auglýsingagerðinni var unnið seinnipart nóvember, tillögurnar prentaðar út og síðan var efnt til atkvæðagreiðslu um bestu jólapeysuauglýsingu ársins. Auglýsingin sem er hér til hægri var valin sú besta í ár, höfundur hennar er Elmar Nökkvi Björnsson. Í öðru sæti varð Ninja Dögun Gunnarsdóttir. Hér eru auglýsingar Elmars Nökkva og Ninju Dögunar.
Sem fyrr segir verður hinn árlegi jólapeysudagur nk. fimmtudag, þegar nemendur og starfsmenn eru hvattir til þess að mæta í skólann klæddir jólapeysum í öllum regnbogans litum.