Fara í efni

Baldvin Z með fyrirlestur í VMA

Baldvin Z, leikstjóri og kvikmyndagerðarmaður.
Baldvin Z, leikstjóri og kvikmyndagerðarmaður.

Baldvin Z, leikstjóri og kvikmyndagerðarmaður, heldur fyrirlestur í M01 á morgun, þriðjudaginn 6. september, kl. 17. Fyrirlesturinn, sem er á vegum listnáms- og hönnunarbrautar VMA, er öllum opinn.

Á sínum tíma var Baldvin nemandi í VMA en hætti þar námi árið 1996. Í fyrirlestrinum á morgun hyggst hann fara yfir sinn feril síðan hann sat á skólabekk í VMA. Hann leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Hvað er að stíga skrefið? Hvernig var leið Baldvins Z? Hvað tekur við að loknu námi? Hvernig kemur maður sér á framfæri?

Óhætt er að segja að Akureyringurinn Baldvin Z hafi látið duglega að sér kveða í íslenskri kvikmyndagerð á undanförnum árum. Hann var m.a. einn af leikstjórum sjónvarpsþáttanna vinsælu „Ófærð“, sem var sýnd sl. vetur, hann leikstýrði myndinni „Órói“, framleiddi „Hæ Gosi“ og síðast en ekki síst var hann maðurinn á bakvið kvikmyndina „Vonarstræti“, sem fékk frábæra dóma. Og núna vinnur hann m.a. að heimildamynd um Reyni Leósson – Reyni sterka.

Fyrirlestur Baldvins Z er sannarlega áhugaverður og því full ástæða til þess að fjölmenna og hlýða á hann á morgun. Fyrirlesturinn er sá fyrsti í vetur sem listnáms- og hönnunarbraut VMA stendur fyrir í vetur, ein eða í samstarfi við aðra. Eins og sl. vetur verður fyrirlestraröð í Ketilhúsinu sem Listasafnið á Akureyri stendur að ásamt list- og hönnunarbraut VMA o.fl.