Fara í efni

Ávarp Bryndísar Þóru Björnsdóttur, nýstúdents

Bryndís Þóra Björnsdóttir.
Bryndís Þóra Björnsdóttir.

Við brautskráninguna í Hofi í dag flutti Bryndís Þóra Björnsdóttir, nýstúdent af náttúruvísindabraut, ávarp brautskráningarnema:

„Góðan dag kæru gestir, starfsfólk skólans og brautskráningarnemar. Verið velkomin og takk fyrir að koma og fagna með okkur í dag. Fyrir hönd samnemenda minna hér ætla ég að segja nokkur orð.

Við höfum komið langa leið frá upphafi framhaldsskólaferils okkar. Það er skrýtið að hugsa um hversu ung við vorum og hversu mikið við höfum breyst á þessum tíma. Á örfáum árum höfum við tekist á við margar áskoranir og erfiðleika. Til dæmis veit ég að covid hefur haft áhrif á stóran hluta skólagöngu flestra hér á sviðinu.

Námið var mun erfiðara í covid, alla vega fyrstu annirnar sem það stóð yfir. Þegar við vorum í fjarkennslu fannst sumum kennurum góð hugmynd að setja 70 aukaverkefni inn á Moodle til þess að bæta upp fyrir kennslufall án þess að gera sig grein fyrir því að allir hinir kennararnir voru líka að auka álag. Ég man eftir fjallinu af Moodle verkefnunum sem minntu á gríska skrímslið Hydra, fyrir hvert verkefni sem þú kláraðir komu tvö ný þess í stað. Svo þurftum við að kljást við þau ein, án félagslífs innan skólans og mun mikilvægara næturlífsins utan hans.

En ég get ekki sagt að ég hafi hatað að vera nemandi í covid. Sem stoltur eigandi covid kettlings get ég sagt af öryggi að það sé mun þægilegra að mæta í tíma heima upp í rúmi með kött í fanginu heldur en í skólann á köldum vetrarmorgni. Fjarnám gerir nám aðgengilegra, því aðstæður okkar eru mismunandi og margt sem þarf að gera fyrir utan skólastofuna. Ég veit að þrátt fyrir leiðindin verður skólinn sterkari við að hafa þessa upplifun undir beltinu.

Ég tala af reynslu þar sem ég hóf fjarnám við Verkmenntaskólann í 9. bekk í grunnskóla og það að geta tekið áfanga utan skóla hefur hjálpað mér að komast hingað til ykkar í dag. En þótt mér líki vel við sjálfstætt nám get ég ekki ofmetið gildi góðs kennara.

Því vil ég þakka þeim kennurum sem gerðu sitt besta til að hjálpa okkur nemendunum þegar allt virtist ómögulegt. Ég man þá sérstaklega eftir Ingimar sem kennir vélstjórn og raungreinaáfanga. Hann hvatti mig áfram og leyfði mér að röfla um stærðfræðikenningar hvenær sem ég vildi. Ingimar fór mun lengra en hann var skyldugur til að hjálpa mér og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Það eru þannig kennarar sem gerðu þessa erfiðu tíma mögulega og komu okkur hingað, að brautskráningu.

En þrátt fyrir að við séum hér til að fagna afreki okkar er mikilvægt að gleyma ekki þeim sem klára námið sitt seinna eða á annan hátt. Það er engin ein rétt leið að brautskráningu og engin skylda að ljúka framhaldsskólanámi á ákveðnum tíma. Því óska ég jafnöldrum mínum sem verða á næstu, þarnæstu eða jafnvel þarþarnæstu brautskráningu alls hins besta. 

Að lokum til samnemenda minna hér í dag: Til hamingju með afrekið! Ég óska ykkur velgengni á hvaða leið sem þið farið. Takk fyrir mig.“