Fara í efni

Ávarp brautskráningarnema 25. maí 2024

Andrea Margrét Þorvaldsdóttir, nýútskrifaður rafvirki, flutti ávarp í dag fyrir hönd brautskráningar…
Andrea Margrét Þorvaldsdóttir, nýútskrifaður rafvirki, flutti ávarp í dag fyrir hönd brautskráningarnema.

Háttvirtur skólameistari, kennarar, samnemendur, starfsmenn og gestir.

Til hamingju með útskriftina og daginn, þið hafið öll unnið afrek að komast hingað í dag. Það besta er að þið vitið það sjálf. Þið vitið hvað þið hafið lagt á ykkur og nú eruð þið komin í mark og því ber að fagna.

Ég heiti Andrea Margrét Þorvaldsdóttir og er í dag að útskrifast af rafiðnbraut VMA. Ég er sennilega elsti nemandinn sem er að útskrifast hér í dag. Allavega í efri skalanum. Ég var 47 ára þegar ég ákvað að sækja um skólavist í Verkmenntaskólanum og varð fimmtug 17.maí síðastliðinn.

Einn góður vinur minn sagði að það væri ótrúlegt að það væri fréttnæmt að ég fimmtug kjerlingin væri að útskrifast út Verkmenntaskólanum og bæri sennilega góðan vott um gáfnafar mitt þar sem flestir klára þetta í kringum 19 ára aldurinn.

Ég var haldin mikilli skólafælni en ákvað að stíga út fyrir þægindarammann og skella mér í þetta frábæra nám. Það var áskorun að byrja að læra að læra aftur. En með ákveðni, þrjósku, eljusemi og gríðarlegum metnaði þá tókst þetta og ég er að klára núna með prýðilega góðar einkunnir. En ég gerði þetta svo sannarlega ekki ein. Ég fékk mikla aðstoð frá samnemendum mínum og verð ég að nefna þá Atla Dag og Ævar sérstaklega sem og alla hina frábæru bekkjarfélaga mína og kennara sem hafa stutt mig og hvatt til dáða.

Einnig verð ég að þakka fjölskyldu minni, sérstaklega mömmu og pabba sem og vinum mínum sem hafa stutt við bakið á mér í einu og öllu. Ég var alveg örugglega ekki auðveldasti nemandinn að fá hingað í skólann og því fá kennararnir hér sérstakt shoutout frá mér. TAKK strákar.

Þessi 3 ár sem ég hef verið nemandi í skólanum hafa kennt mér margt. Bæði að það er ALLT hægt og svo það að aldur er bara tala. Ég hef eignast mikið af góðum vinum hér í skólanum, bæði á meðal nemenda og kennara. Ég mætti alltaf í skólann full tilhlökkunar og gleði. Mér fannst námið einstaklega áhugavert og skemmtileg, meira að segja staðlarnir hjá Óskari.

Við útskriftarnemarnir sem eru hér í dag erum bæði gríðarlega hamingjusöm en mörg hver einnig örlítið kvíðin yfir því að vera að yfirgefa þennan dásamlega skóla og alla kennarana sem þekkja okkur svo vel og hafa reynst okkur ákaflega vel í gegnum okkar nám. Við vitum ekki alveg hvað bíður okkar en við vitum að lífið er ævintýri og við eigum að fanga hvert tækifæri til að mennta okkur meira, lifa lífinu og njóta þess.

Ég hvet ykkur öll til að elta draumana ykkar, ekki taka pásu frá náminu sé þess nokkur kostur. Það getur verið gríðarlega erfitt að byrja aftur í skóla. Ef þið fetið braut sem á ekki við ykkur þá breytið þið bara til og farið aðra leið í náminu. Við erum ekki tré og getum fært okkur til eins og þurfa þykir. Þið sem eldri eruð hér í salnum og eruð að velta því fyrir ykkur hvort þið eigið að fara í eitthvert nám, þá segi ég hiklaust við ykkur, ekki spurning! Skellið ykkur, það er enginn tími betri en annar og lífið bíður svo sannarlega ekki eftir okkur.

Þegar ég lít yfir salinn þá sé ég stolt, stolt foreldra yfir að sjá börnin sín útskrifast, stolt kennara yfir þeim árangri sem nemendur þeirra hafa náð, stolt vina yfir að sjá félaga sína klára þennan áfanga. Og hér fyrir aftan mig situr stoltur hópur útskriftarnema, þeir eru stoltir yfir góðum árangri af mikilli vinnu, stressi og aga. Í VMA lærðum við að læra, við vitum að við kunnum ekki allt og vitum ekki allt. Við vitum að við búum ekki yfir þekkingu heimisins. Við vitum líka takmörk okkar og við vitum hvað við vitum í raun og veru lítið. En við vitum líka að við getum þetta og þekkjum styrk okkar og úthald.

Þar sem ég stend hér í pontu, kveð ég ykkur með bjartsýni, von og stolti. Ég ætla rétt að vona það krakkar að þið farið núna sjálfsörugg og spennt út í lífið en byrjið á því að skemmta ykkur fallega í kvöld og dansið af ykkur rassinn.

Húrra fyrir okkur !!!