Fara í efni

Ávarp brautskráningarnema

Kormákur Rögnvaldsson og Anna Birta Þórðardóttir.
Kormákur Rögnvaldsson og Anna Birta Þórðardóttir.

Við brautskráninguna í dag sameinuðust tveir nemendur um ávarp brautskráningarnema, Anna Birta Þórðardóttir og Kormákur Rögnvaldsson. Bæði brautskráðust þau í dag úr hársnyrtiiðn og luku einnig stúdentsprófi. Anna Birta útskrifaðist með stúdentspróf af félags- og hugvísindabraut og Kormákur lauk viðbótarnámi til stúdentsprófs. Og bæði hafa þau lagt drjúgan skerf til félagslífsins öll árin sín í skólanum, bæði í þágu nemendafélagsins Þórdunu og Leikfélags VMA.

Kæru útskriftarnemar, starfsmenn VMA og aðrir góðir gestir!

Við viljum byrja á því að óska þessum stóra hópi útskriftarnema innilega til hamingju og hrósa þeim fyrir að hafa náð þessum merkilega áfanga í lífinu. Fyrir stuttum þremur árum hefði mér ekki dottið í hug að ég myndi standa hérna í dag með ræðu á útskriftardeginum mínum. Ekki af því að ég eigi erfitt með að standa fyrir framan fólk og tala. Langt frá því. Ég hef nefnilega verið athyglissjúkur frá fæðingu. Heldur vegna þess að ég er hræðilegur í að skrifa langa texta, sem kennarar hérna ættu auðveldlega að geta vottað fyrir og þess vegna stend ég ekki einn hérna í dag.

Þegar ég hóf skólagöngu mína í VMA fyrir 5 árum sem lítill og óöruggur nýnemi hefði ég aldrei getað ímyndað mér þá manneskju sem ég er hérna fyrir framan ykkur í dag. Framhaldsskólaárin hafa sennilega verið þau verstu en samt sem áður bestu sem ég hef upplifað og ég veit að ég er alls ekki ein þar. Ég er svo þakklát fyrir VMA og þá lífsreynslu sem skólinn hefur gefið mér og að hafa fengið að taka þátt í félagslífinu öll mín ár í skólanum á einn eða annan hátt.

Þegar ég byrjaði í skólanum stóð yfir það sem sumir hérna inni muna kannski eftir og kallaðist covid. Við sem byrjuðum á þessum tíma neyddumst til að læra í öllum tölvum, öppum og tólum sem kennurum datt í hug að nota þar sem við urðum að virða takmarkanir og eyða miklum tíma heima. Veit ekki með ykkur en herbergið mitt hefur aldrei verið eins hreint. Það var krefjandi að hefja skólagöngu sína í framhaldsskóla í gegnum fjarkennslu og var mikil óvissa um komandi tíma og þá sérstaklega í verklegu námi. En ég er einnig þakklátur fyrir það sem ég lærði á leiðinni og að hafa fengið amk eitt ár af hefðbundnu framhaldsskólalífi hérna í VMA.

Skólinn stóð sig vel í gegnum covid og aðlagaði sig að aðstæðum og kom til móts við nemendur. Félagslífið hrundi auðvitað aðeins en við erum ánægð að hafa fengið að vera partur af því að koma því aftur í gang og geta séð það blómstra til áframhaldandi tíma. Framhaldsskólinn mótar okkur sem einstaklinga og hefur VMA átt stóran þátt í því að gera okkur öll að þeim manneskjum sem við erum í dag, hvort sem það er í kennslustundum, með vinasamböndum eða í félagslífinu. VMA er pínu eins og völundarhús og þú byrjar að finna sjálfan þig svona um það bil á sama tíma og þú lærir að finna kennslustofurnar þínar. Það voru forréttindi að koma í skólann og fá að sitja í stjórn nemendafélags og huga að hagsmunum nemenda, skipuleggja viðburði og taka þátt í leiksýningum með yndislegu og hæfileikaríku fólki.

Einn af bestu hlutunum við VMA og það sem gerir hann að þeim skóla sem við elskum öll er auðvitað starfsfólkið sem starfar innan hans og því langar okkur að hrósa því öllu fyrir vel unnin störf því án þeirra væri ekkert okkar hér í dag. Við eigum eins og flestir aðrir hérna ýmsar skemmtilegar og fyndnar minningar með hinum og þessum kennurum og langar okkur að rifja upp smá eins og þegar kennari sem ég veit ekki hver er og hefur aldrei kennt mér skammaði mig fyrir að vera alltaf að skrópa hjá honum í tíma, eða hvernig Ómar verður að fá sér kaffi áður en hann talar við okkur því hann veit að við erum með vesen en hann finnur samt alltaf lausn á því. Einnig er viðeigandi að vitna aðeins í hana Völu og segja „May the force be with you“. Og Hildur Salína: Ef þú veist ekki hvað ég meina, þá meina ég það sem ég segi.

Framhaldsskóli getur verið þvílíkur rússíbani og þegar honum lýkur tekur framtíðin við sem óskrifuð bók með endalausum möguleikum. Hver og einn mun fara sína leið hvort sem hún leiðir til áframhaldandi náms, vinnu eða ævintýra. Svo munið að njóta komandi tíma, lífið er núna og allir vegir eru færir.

Í lokin viljum við svo bara segja takk fyrir allt VMA og starfsfólk hans! Við erum öll stolt af því að hafa útskrifast úr þessum frábæra skóla og enn og aftur innilega til hamingju með áfangann, elsku útskriftarnemar! Njótum lífsins! Takk fyrir okkur og njótið dagsins!