Fara í efni

Ávarp Önnu Kristjönu Helgadóttur

Anna Kristjana Helgadóttir flytur ávarpið í Hofi.
Anna Kristjana Helgadóttir flytur ávarpið í Hofi.

 Við brautskráninguna í Hofi í dag flutti Anna Kristjana Helgadóttir, nýútskrifaður rafeindavirki og fyrrv. formaður nemendafélagsins Þórdunu, ávarp fyrir hönd brautskráningarnema:

Skólameistari, starfsfólk, útskriftarnemar og aðrir góðir gestir.

Til hamingju með daginn! Í dag er stór dagur, dagur sem flest okkar hafa beðið lengi eftir. Loksins komið að því að útskrifast og með bæði spennu og sorg í hjarta fögnum við hér í dag. Það verður erfitt að kveðja þennan skóla, sem hefur verið eins og annað heimili fyrir mig og marga aðra hér í dag undanfarin ár.

Framhaldsskólinn mótar mann og undirbýr fyrir framtíðina og allt sem hún ber í skauti sér. Maður lærir svo ótrúlega marga ómetanlega hluti og þetta er lífsreynsla sem fylgir manni alla ævi. Þegar ég var að velja framhaldsskóla þá kom aldrei neitt annað til greina en að velja Verkmenntaskólann á Akureyri. Ég segi stundum að ég hafi byrjað í VMA þegar ég var í 9. bekk, en þá var mamma mín aðstoðarleikstjóri í Bjart með köflum sem VMA setti upp árið 2016. Það var svo spennandi að fá að vera með, vera með öllu þessu frábæra fólki í félagslífinu hérna og fá að taka þátt. Svo að sjálfsögðu, þegar ég byrjaði í skólanum, kom ekki annað til greina en að taka virkan þátt í félagslífinu. Ég fékk svo þann heiður að sitja í stjórn nemendaráðsins hér og vinna með svo ótrúlega fjölbreyttu og skemmtilegu fólki og þetta hefur verið algjört ævintýri. Að fá að kynnast þessari fjölbreyttu flóru af fólki sem er hér í skólanum, að setja upp heilu leiksýningarnar og vera formaður nemendafélagsins. Allir geta eitthvað, en enginn getur allt, sagði einn grunnskólakennarinn minn oft við mig. Þessi setning fylgdi mér aðeins í gegnum félagslífið hér, því við ein getum ekki haldið því uppi en þegar þetta frábæra fólk sem hefur setið í stjórnum hér kemur saman þá er allt hægt.

Þegar ég byrjaði í skólanum var ég á matvælabraut, en margt hefur breyst síðan þá. Ég flakkaði á milli brauta en fann mig loksins í rafdeildinni og er nú loksins að útskrifast af rafeindavirkjun. Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir alla þá kennara og allt starfsfólk sem ég hef fengið heiðurinn af því að kynnast, læra af og vinna með hér í skólanum.

Að vera nemandi í VMA eru ákveðin forréttindi. Hér er allt til alls, fjölbreytt nám, starfsfólk sem vill allt fyrir mann gera, aðstaða til alls og svo frábært félagslíf. Hér eignumst við vini sem munu fylgja okkur út ævina og minningar sem við munum aldrei gleyma.

Þegar ég var að panta útskriftarhúfuna mína og velja hvað ég ætti að láta skrifa aftan á hana kom aldrei neitt annað til greina en að vitna í orð Júlíusar Sesar, Veni, vidi, vici, sem á íslensku þýðir Ég kom, ég sá, ég sigraði. Því hér í VMA sigraðist ég á mínum stærstu óttum og á sjálfri mér.

Þegar ég hóf mína skólagöngu í VMA var ég lítil, kvíðin, feimin og vinafá. En ég fer héðan svo full af orku, hamingju, stolti og umkringd ómetanlegum vinum. Ég á starfsfólki og nemendum þessa skóla svo margt að þakka og ég veit að það sama gildir um marga aðra. Ég get sagt að það að hafa valið að fara í VMA sé besta ákvörðun sem ég hef nokkurn tímann tekið. Mig langar að þakka svo mörgum sem mótuðu mína skólagöngu, án þeirra væri ég ekki sú sem ég er í dag, en ég held að ég yrði hér í allan dag ef ég ætti að minnast á alla. En ég verð að nefna elsku kennarana sem stóðu með mér alla rafdeildina, Ara og Hauk. Ég veit að ég tala fyrir hönd allra rafeindavirkjanna hér í dag þegar ég segi takk fyrir allt, bara ef allir kennarar væru eins og þið. Svo að sjálfsögðu, Pétur Guðjónsson, takk fyrir að standa alltaf við bakið á mér, sama hvað, því án þín væri félagslífið í VMA ekki einu sinni helmingurinn af því sem það er.

Að lokum langar mig að lesa texta sem ég fann einu sinni þegar ég var niðri í kjallara í skólanum, en þessi texti er úr lagi eftir Emilíu Baldursdóttur.

Í lágreistu húsi á Eyrarlandsholti,
held ég til mennta af talsverðu stolti.
Ég sit þar í tímum og sýp í mig fræði,
svo læri ég kannski að sauma á mig klæði.

Gangarnir iða af eldfimum hjörtum,
oft finn ég hitann af logunum björtum.
Ef brenn ég til skaða og svíður í sárin,
sé ég í hyllingum mynd gegnum tárin.

Því seinna er verð ég í veröldu stór,
verður reist af mér stytta við hliðina á Þór,
svo busar í hrifningu horfa til mín,
er haustsólin skín og VMA seiðir þá alla til sín.

Í Gryfjuna sæki ég gleði og fæði,
en geng inn á bókasafn þurfi ég næði.
Alkunnum frösunum fleygum ég hampa,
er fær um að elda og smíða mér lampa.

Frá lágreistu húsi á Eyrarlandsholti
held ég um síðir með talsverðu stolti.
Undir marglitum kollum minningar lifa,
þá má einu gilda ég segi og skrifa.

Hvort seinna er verð ég í veröldu stór,
verður reist af mér stytta við hliðina á Þór,
svo busar í hrifningu horfa til mín,
er haustsólin skín og VMA seiðir þá alla til sín.

Enn og aftur, elsku útskriftarnemar, innilega til hamingju með áfangann. Ég hlakka svo til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér, en sama hvert við förum og hvað við gerum, þá mun VMA alltaf eiga sérstakan stað í hjörtum okkar. Við getum haldið höfðinu hátt og sagt með stolti að við útskrifuðumst úr Verkmenntaskólanum á Akureyri. Takk fyrir allt, VMA.