Fara í efni

Aukin grímunotkun í VMA

Nemendur í vélstjórn og húsasmíði með grímur.
Nemendur í vélstjórn og húsasmíði með grímur.

Það er gömul saga og ný að skjótt skipast veður í lofti. Eins og sóttvarnayfirvöld hér á landi hafa margoft lagt áherslu á er kórónuveiran síður en svo á bak og burt þó svo að hún hafi tímabundið legið í dvala sl. sumar. Önnur bylgja veirunnar gekk yfir í síðasta mánuði og enn og ný hefur hún blossað upp og hafa smitin að mestu verið bundin við suðvesturhorn landsins.

Í tengslum við þessa þriðju bylgju veirunnar ákváðu yfirvöld menntamála í samráði við Almannavarnir og sóttvarnayfirvöld að beina því til starfsfólks og nemenda framhalds- og háskóla á höfuðborgarsvæðinu að nota grímur og jafnframt að auka fjarkennslu þar sem því yrði við komið. Í framhalds- og háskólum  utan höfuðborgaravæðisins er grímunotkun valkvæð.

Í gærmorgun voru grímur aðgengilegar bæði starfsmönnum og nemendum í VMA og voru margir sem nýttu sér þær. Mun fleiri starfsmenn og nemendur voru því með grímur fyrir vitum sér í skólanum í gær en áður. Notkun gríma í skólanum er sem fyrr segir valkvæð eins og er en eins og dæmin sanna getur fljótt orðið breyting á, ef t.d. koma upp mörg smit á Akureyri.

Undirstrikað skal að sem fyrr eru það hinar persónubundnu sóttvarnir sem skipta mestu máli: handþvottur, sprittun og að virða fjarlægðarmörk.