Fara í efni

Aukið öryggi við rafsuðu með nýjum hlífðartjöldum

Hlífðartjöldin komin upp í málminum.
Hlífðartjöldin komin upp í málminum.

Í raf- og logsuðu er mikilvægt að fylgja öllum öryggisreglum og -kröfum. Unnið er með efni sem geta skapað hættu ef fyllsta öryggis er ekki gætt. Öryggismálin eru alltaf eitt af grunnstefunum í kennslu á málmiðnaðarbrautinni í VMA. Ekki síst er lögð áhersla á þessa hluti þegar nemendur stíga sín fyrstu skref og einnig er mikilvægt að fara í þetta aftur og aftur því góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Sú hætta er fyrir hendi að rafsuðu fylgi rafsuðublinda og einnig getur það gerst að heitar agnir skjótist í andlit og augu nálægra. Til þess að fyrirbyggja rafsuðublindu nota þeir sem rafsjóða hlífðarhjálma og rauðleitt þar til gert hlífðargler ver augun.

En það eru ekki aðeins þeir sem rafsjóða sem eru í hættu á að verða fyrir rafsuðublindu. Það á einnig við um þá sem ganga fram hjá þeim sem rafsýður. Birtan af loganum getur orakað rafsuðublindu eða ónot í augum annarra en þeirra sem framkvæma suðuna. Til þess að fyrirbyggja það er hægt að skerma suðusvæðið af með sérstökum og til þess gerðum rauðleitum tjöldum. Og það hefur einmitt verið gert í húsnæði málmiðnaðarbrautar VMA. Á síðustu vikum hefur verið unnið að því að setja upp tjöld sem skerma af rafsuðubásana.

Kristján Kristinsson, kennari á málmiðnaðarbrautinni, segir að lengi hafi verið horft til þess að setja upp slík hlífðartjöld og hann fagnar því mjög að þau séu komin upp. Nemendur á brautinni lögðu verkefninu lið með því að smíða slár til þess að setja tjöldin upp.

Hlífðartjöldin, sem koma frá sænska framleiðandanum ESAB, eru sérstaklega hönnuð í þessum tilgangi. ESAB er einn af af stærri framleiðendum í hverskonar raf- og logsuðuvörum.