Fara í efni

Auður Ösp með þriðjudagsfyrirlestur

Auður Ösp Guðmundsdóttir.
Auður Ösp Guðmundsdóttir.

Frá því í haust hafa þriðjudagsfyrirlestrar verið á dagskrá í Ketilhúsinu en þeir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins. Hlé varð á fyrirlestrunum í desember en nú verður þráðurinn tekinn upp aftur og í dag, þriðjudaginn 29. janúar kl. 17-17.30, er komið að fyrsta fyrirlestrinum á þessu ári. Hann heldur Auður Ösp Guðmundsdóttir, vöru- og leikmyndahönnuður, og er yfirskriftin „Og mig sem dreymdi alltaf um að verða uppfinningamaður.“ Í fyrirlestrinum segir Auður Ösp frá námsárum sínum í Listaháskóla Íslands, ólíkum verkefnum sem falla undir vöruhönnun og vinnu sinni hjá Leikfélagi Akureyrar og við sýninguna Kabarett en sýningum á þessari vinsælu uppfærslu fer nú senn að ljúka.

Auður Ösp Guðmundsdóttir útskrifaðist með BA-próf í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2010. Síðan hefur hún starfað sem vöru- og upplifunarhönnuður auk þess að annast sýningarhönnun fyrir Spark hönnunargallerí og Hönnunarsafn Íslands. Frá því sl. haust hefur hún starfað hjá Leikfélagi Akureyrar við búninga- og leikmyndahönnun fyrir uppfærslu á söngleiknum Kabarett.

Áfram verður haldið með þriðjudagsfyrirlestrana á hverjum þriðjudegi fram í mars nk. Upplýsingar um fyrirlestrana verða hér á heimasíðu VMA.

Vert er að undirstrika að sem fyrr er ókeypis á fyrirlestrana og eru allir velkomnir.