Fara í efni

Áttatíu og sex brautskráðir frá VMA

Útskriftarhópurinn. Ljósmynd: Páll A. Pálsson.
Útskriftarhópurinn. Ljósmynd: Páll A. Pálsson.

Áttatíu og sex nemendur með 97 skírteini brautskráðust frá VMA við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í dag.

Skipting brautskráningarnema á námsbrautir er eftirfarandi:

Hársnyrtiiðn - 1
Múrsmíði - 9
Rafeindavirkjun - 12
Rafvirkjun - 4
Stálsmíði - 1
Vélvirkjun 1
Vélstjórn - 1
Viðbótarnám til stúdentspróf að loknu iðnnámi - 3
Iðnmeistarar - 15
Félags- og hugvísindabraut - 2
Fjölgreinabraut - 9
Íþrótta- og lýðheilsubraut - 6
Listnáms- og hönnunarbraut - myndlistarlína - 5
Listnáms- og hönnunarbraut - textíllína - 3
Náttúruvísindabraut - 3
Viðskipta- og hagfræðibraut - 1
Sjúkraliðabraut - 10

Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og sjúkraliðanáms, og Baldvin Ringsted, sviðsstjóri iðn- og fjarnáms, afhentu brautskráningarnemum skírteini sín.

Skólalífið og sóttvarnir

Í upphafi brautskráningarræðu sinnar var Sigríði Huld Jónsdóttur, skólameistara, tíðrætt um sóttvarnir, sem svo mjög hefur sett svip sinn á skólahaldið í tæp tvö ár. „Ég hef þurft að velta þeim allt of mikið fyrir mér síðustu annir þótt það hafi ekki komið mikið niður á námi og kennslu. Fyrir ári síðan snérist allt um hólfaskiptingar, handspritt og strangar takmarkanir - í ár snýst allt um bólusetningar, slappleika eftir bólusetningar, örvunarskammt, grímunotkun, smittölur og smitrakningu. Þið eruð örugglega komin með nóg af þessum stundum allt of löngu tölvupóstum með flóknum útskýringum um takmarkanir, handþvott, sótthreinsun á kennslustofum og grímunotkun. Sem betur fer hef ég ekki þurft að nefna eins oft að hópamyndanir séu bannaðar innan veggja skólans eins og ég þurfti að gera á síðasta skólaári.  
Klisjan um fordæmalausa tíma mun fylgja okkur eitthvað áfram þótt margt í okkar daglega lífi sé að verða líkara því sem við þekktum í lok árs 2019. Þessa setningu sagði ég líka í maí s.l. en við sitjum uppi með klisjuna eitthvað áfram. 
Á þessari stundu vil ég segja við nemendur VMA: þið hafið sum hver þurft að búa við miklar takmarkanir helminginn af framhaldsskólanámi ykkar - en þið hafið staðið ykkur frábærlega. Þið hafið sýnt dugnað, þrautseigju og æðruleysi í þeim aðstæðum sem við höfum þurft að starfa í. Kennarar og annað starfsfólk skólans á líka miklar þakkir skilið fyrir sitt framlag til nemenda og skólans. Ég vil biðja alla hér í salnum og hér á sviðinu að klappa fyrir ykkur sjálfum, samnemendum, kennurum og starfsfólki VMA.“ 

Forréttindi að kenna

Sigríður Huld ræddi um starf kennarans og hvernig hann getur haft mótandi áhrif á nemendur sína.
„Að vera kennari er forréttindastarf, við sem störfum í skólunum gleymum því stundum eða gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því hve mikil áhrif kennari getur haft á líf nemenda, algjörlega óháð skólastigum og aldri nemenda. Ég er viss um að við öll hér inni getum hugsað til baka og munum augnablik þar sem kennari breytti einhverju í lífi okkar, fékk okkur til að staldra við og hugsa, leiðbeindi okkur inn á svið sem voru okkur framandi, fékk okkur til að skilja eitthvað sem við höfðum ekki áttað okkur á og síðast en ekki síst sýndi okkur kærleika og umhyggju. Ég held því fram að kennarar séu einir sterkustu áhrifavaldar sem til eru. Í heimi sem er sífellt að breytast og áreitin eru mörg er hlutverk kennara afar mikilvægt. Kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingu þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Allir skólar eru fullir af áhrifavöldum og kennarar eiga marga fylgjendur. 
Kennarastarfið snýst ekki bara um að vita og kunna eitthvað í ákveðnu fagi eða grein - kennarastarfið snýst fyrst og fremst um að hafa áhuga á fólki og ná árangri með því af umhyggju fyrir framtíð þess. Ég sé nánast á hverjum degi hve mikil áhrif kennarar hafa á líf nemenda sinna - og það getur skipt sköpum fyrir framtíð nemenda hvernig samskipti, nám og kennsla fer fram á milli kennara og nemenda. Sjálf get ég nefnt kennara sem hafa haft mikil áhrif á mig og hvaða leiðir ég hef valið í lífinu - stundum hef ég fattað það löngu seinna, það eru töfrarnir sem kennarar búa til. 
Hér í VMA eru margir kennarar sem búa yfir töframætti og eru áhrifavaldar. Einn er hér með okkur í dag og af öllum ólöstuðum þá verð ég að biðja hann um að koma hingað og taka við blómvendi og þakklæti frá nemendum og samstarfsfólki - en það er hann Hilmar Friðjónsson sem var einn af fimm kennurum á Íslandi sem var tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna nú í haust.“ 

Verðlaun og viðurkenningar

Kolbrún Alexandra Hauksdóttir (félags- og hugvísindabraut) – verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar, sem var kennari við VMA.

Anna María Alfreðsdóttir (fjölgreinabraut) – verðlaun sem SBA-Norðurleið gefur fyrir framúrskarandi árangur í ensku, verðlaun fyrir góðan árangur í spænsku, sem VMA gefur, og síðast en ekki síst hlaut Anna María verðlaun frá A4 fyrir að vera dúx skólans – með bestan árangur á stúdentsprófi.

Gunnar Björn Ólafsson (listnáms- og hönnunarbraut – myndlistarlína) – hlaut þrautseigjuverðlaun frá Hollvinasamtökum VMA. Þessi verðlaun eru veitt nemanda sem hefur sýnt mikla þrautseigju á námstímanum.

Kentwald Genesis Rico Capin (listnáms- og hönnunarbraut – myndlistarlína) – verðlaun frá Slippfélaginu fyrir framúrskarandi árangur í myndlistargreinum. Jafnframt hlaut Kentwald Hvatningarverðlaun VMA, sem Terra gefur, en þau eru veitt nemanda sem hefur verið fyrirmynd í námi, sýnt miklar framfarir í námi, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt. Í umsögn um verðlaunin segir að Kentwald hafi á námstíma sínum í skólanum sýnt miklar framfarir í námi, seiglu og mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum.

Katarzyna Rymon-Lipinska (listnáms- og hönnunarbraut – textíllína) – verðlaun frá Kvennasambandi Eyjafjarðar fyrir framúrskarandi árangur í textílgreinum.

Jóhann Jörgen Kjerúlf (náttúruvísindabraut)  hlaut verðlaun sem Háskólinn í Reykjavík veitir fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Um er að ræða vegleg bókaverðlaun, auk þess sem ef Jóhann kýs að hefja nám við Háskólann í Reykjavík fær hann niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi. 

Margrét Jóhanna Sigmundsdóttir (sjúkraliðabraut) - verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku, sem Penninn Eymundsson gefur. Einnig fékk Margrét verðlaun frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir framúrskarandi árangur í sjúkaliðagreinum. 

Anna Kristjana Helgadóttir (rafeindavirkjun) – viðurkenning úr Árnasjóði, sem fjölskylda Árna Jóhannssonar, fyrrverandi kennara VMA í rafgreinum, stofnaði. Árni var rafeindavirki og kenndi rafiðngreinar og stærðfræði í VMA. Hann lést árið 2014 um aldur fram. Samkennarar Árna ákváðu að við brautskráningar veiti sjóðurinn viðurkenningar til nemenda í rafeindavirkjun.

Sebastian Fjeldal Berg (rafeindavirkjun) – verðlaun sem Ískraft gefur fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum rafiðna. Einnig hlaut Sebastian viðurkenningu úr Árnasjóði - minningarsjóði um Árna Jóhannsson, kennara og rafeindavirkja.

Félagslíf í tímum covid

Sigríður Huld sagði að þrátt fyrir allt hafi í vetur tekist að halda úti töluverðu félagslífi nemenda. Þar hafi hlutur leikfélagsins verið einna stærstur. Haldið hafi verið leiklistarnámskeið með góðri þátttöku nemenda, stuttverkið Djúpið eftir Emblu Björk Hróadóttur var frumsýnt á þemaviku í leikstjórn höfundar en það fjallar um andlegt ofbeldi í nánum samböndum og sáu það allir nýnemar skólans sem forvarnaverkefni. Þá gat Sigríður Huld um uppsetningu hryllingshúss á hrekkjavökuhátíðinni, sem sló í gegn, og einnig hafi Leikfélag VMA hafið æfingar á sýningunni Lísu í Undralandi, sem verður frumsýnt í febrúar á næsta ári.

„Við náðum að fara í nýnemaferð en þar sjá eldri nemendur um dagskrá dagsins. Þá hafa verið haldin böll og nemendafélagið staðið fyrir nokkrum minni viðburðum eins og hægt var, t.d. svokallaða gleðidaga en þá fá nemendur smá glaðning í upphafi skóladags sem oftar en ekki er eitthvað matarkyns. Gettu betur liðið er búið að æfa á fullu en sú keppni hefst í janúar. Skipulag árshátíðar er í fullum gangi og framundan verða vonandi sem flestir minni og stærri viðburðir nemendafélagsins. Hér í dag höfum við útskrifað stóran hóp nemenda sem hafa sett mark sitt á félagslíf skólans. Það er ljúfsárt að sjá á eftir útskriftarnemendum okkar fara út í lífið en sérstaklega sjáum við eftir þeim stóra hópi tæknifólks sem nú hefur lokið námi í VMA. Þetta er fólk sem hefur sett upp risastór verkefni innan og utan skólans, séð um að litríkar sýningar verði enn litríkari með ljósum, tekið upp og streymt viðburðum og séð til þess að hljóð berist með réttum hætti til okkar hinna. Ég er nokkuð viss um að í þessum hópi hér er fólk sem mun halda áfram á sviði miðlunar í framtíðinni. 
Það er skólanum afar mikilvægt að hér sé öflugt félagslíf og margir nemendur leggja mikið á sig til að halda utan um félagslíf samnemenda sinna. Við brautskráningu hefur skólinn ávallt afhent blómvendi til þeirra nemenda sem setið hafa í stjórn Þórdunu nemendafélags skólans eða komið með öðrum hætti að skipulagi og framkvæmd í félagslífi nemenda s.s. tengt viðburðum, leiksýningum og hagsmunagæslu nemenda. Ég vil biðja þessa nemendur að koma til okkar og veita blómunum viðtöku:“

  • Anna Kristjana Helgadóttir
  • Auður Lea Svansdóttir
  • Dagur Þórarinsson
  • Elín Jóhanna Gunnarsdóttir
  • Embla Björk Hróadóttir
  • Hákon Logi Árnason
  • Ólafur Anton Gunnarsson
  • Sebastian Fjeldal Berg
  • Sigurður Bogi Ólafsson

Tónlistarflutningur og ávarp brautskráningarnema

Fyrir brautskráninguna, á meðan gestir gengu í salinn í Hofi, spiluðu hljóðfæraleikarar úr strengjasveit Tónlistarskólans á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar nokkur jólalög undir stjórn Eydísar Úlfarsdóttur.

Embla Björk Hróadóttir, sem brautskráðist sem rafeindavirki í dag, söng við brautskráninguna lag úr kvikmyndinni Zootopia við íslenskan textann Gefstu ekki upp sem Embla samdi.

Einnig var varpað upp á skjá myndbandi með atriði úr væntanlegri sýningu Leikfélags VMA á Lísu í Undralandi, sem verður frumsýnd í febrúar 2022.

Anna Kristjana Helgadóttir, sem brautskráðist sem rafeindavirki í dag, flutti útskriftarræðu fyrir hönd nemenda. Anna Kristjana hefur unnið gríðarlega mikið starf í félagslífi nemenda í skólanum og var m.a. formaður Þórdunu – nemendafélags skólans.

Verið stolt af árangri ykkar!

Í orðum sínum til brautskráningarnema hvatti Sigríður Huld þá til þess að vera stolta af árangri sínum og horfa björtum augum til framtíðarinnar.
„Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. En fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni.
Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Þótt covid hafi markað skólagöngu ykkar síðustu annir þá vona ég að þið hafið náð því, sem sagt er um þessi svokölluðu framhaldsskólaár, að þá kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt - þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.“

Og til samstarfsfólks síns í VMA sagði Sigríður Huld:

„Takk öll fyrir samstarfið, dugnaðinn og stuðninginn á þessari önn og ég vil sérstaklega þakka Benedikti Barðasyni aðstoðarskólameistara fyrir vel unnin störf fyrir hönd nemenda og starfsmanna skólans. Að stjórna skóla eins og VMA er ekki einnar konu verk, samheldinn starfsmannahóp þarf líka til og það er þakkarvert að vinna með starfsmannahópnum í VMA. Ég er afar stolt af samstarfsfólki mínu fyrir fagmennsku þeirra og umhyggju fyrir nemendum og þeim gildum sem skólinn stendur fyrir. Kærar þakkir öll fyrir samstarfið á önninni.“ 

Brautskráningarathöfninni lauk Sigríður Huld með því að flytja ljóðið Aðventa eftir Hákon Aðalsteinsson.

Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós
þá veitist þér andlegur styrkur.
Kveiktu svo örlítið aðventuljós,
þá eyðist þitt skammdegis myrkur.

Það ljós hefur lifað um aldir og ár
yljað um dali og voga.
Þó kertið sé lítið og kveikurinn smár
mun kærleikur fylgja þeim loga.

Láttu svo kertið þitt lýsa um geim
loga í sérhverjum glugga.
Þá getur þú búið til bjartari heim
og bægt frá þér vonleysisskugga.