Fara í efni

Árshátíðin verður ótrúlega skemmtileg

Kristján Blær Sigurðsson, veislustjóri.
Kristján Blær Sigurðsson, veislustjóri.

Það stefnir að sjálfsögðu í ósvikna skemmtun næstkomandi föstudagskvöld þegar blásið verður til árshátíðar VMA í Íþróttahöllinni. Stórhljómsveitin Agent Fresco stígur á svið og það gerir einnig Emmsjé Gauti. Fjölmargt annað verður til skemmtunar, eins og vera ber á árshátíð. Húsið verður opnað kl. 18:30 og hátíðin hefst kl. 19:00. Dansleikur að loknu hlaðborði og skemmtiatriðum hefst kl. 23:00. Maðurinn sem heldur utanum alla þræði kvöldsins er veislustjórinn sjálfur, Kristján Blær Sigurðsson, sem er nemandi í VMA.

„Ég hef ekki verið veislustjóri í svona stórri veislu en ég var með uppistand á árshátíðinni í fyrra og einnig var ég sömuleiðis með nokkrar skemmtisýningar í Rósenborg ásamt vinum mínum úr Brekkuskóla, Þorsteini Kristjánssyni og Úlfi Logasyni. Við unnum einnig stuttmyndakeppni sem við tókum þátt í. Ég hef einnig verið kynnir á Söngkeppni Samfés hér á Akureyri og því er ekki alveg nýtt fyrir að standa uppi á sviði fyrir framan fjölda manns,“ segir Kristján Blær og upplýsir að hann sé fjarri því að vera stressaður fyrir árshátíðina. „Nei, alls ekki, enda hef ég verið að undirbúa mig síðan í desember, t.d. að búa til grín um skólastjórnendur, kennara, aðra starfsmenn og nemendur. Ég hef að undanförnu verið að vinna myndband sem ég síðan tengi inn í veislustjórnina. Þar er ýmislegt áhugavert og ég get upplýst að í myndbandinu sýna nokkrir kennarar mikla leiktilburði.“

Kristján Blær svarar því játandi að hann hafi lengi haft ánægju af því að búa eitthvað til og skemmta öðrum. „Ég man eftir því að þegar ég var lítill var ég alltaf að sýna einhver leikrit heima í stofu, mér finnst ekki leiðinlegt að tala,“ segir hann og brosir.

Kristján Blær er á íþróttabraut í VMA og þegar hann er spurður hvort hann sé langt kominn í náminu svarar hann hlæjandi: „Þetta er vond spurning! Ég á að vera langt kominn, en ætli ég sé ekki hálfnaður til stúdentsprófs.“ Ástæðan fyrir því að Kristján Blær valdi þessa braut er einföld: hann hefur mikinn áhuga á íþróttum, einkum handbolta og fótbolta. „Ég hef verið liðsstjóri hjá Akureyri í handboltanum síðustu tvö ár og þar áður var ég liðsstjóri hjá Hömrunum í handboltanum. Ég hef mikinn áhuga á því að verða þjálfari í framtíðinni í annað hvort handbolta eða fótbolta.“

En aftur að árshátíðinni nk. föstudagskvöld. Hún leggst mjög vel í veislustjórann. „Ég veit að árshátíðin verður ótrúlega skemmtileg. Fyrir mig verður þetta heilmikil áskorun og það er bara gaman. Ég er mjög ánægður með að fá þetta tækifæri og ég vil taka það fram að stjórn Þórdunu leitaði til mín með þetta áður en ég settist sjálfur í stjórnina. Ráðning mín er því ekki klíkuskapur, eins og örugglega margir halda!“

Miðinn á hátíðina kostar 6.900 kr. Miðasala hefur verið undanfarna daga í Gryfjunni og svo verður áfram í dag, á morgun og fram á miðvikudag. Hægt verður að kaupa bara miða á ballið og kostar hann kr. 1.500. Húsið verður opnað fyrir ballgesti kl. 22:45 og er gert ráð fyrir að ballið standi til 02:00. Hægt verður að kaupa miða á ballið við hurð. Rétt er að taka fram að 10. bekkingar eru velkomnir á ballið. Sem fyrr verður árshátíð VMA vímulaus hátíð og mun ölvun ógilda aðgöngumiðann.

Hér eru nánari upplýsingar um árshátíðina.