Fara í efni

Árshátíð VMA 15. mars - forsala aðgöngumiða í Gryfjunni

Þá er vetrarfrí að baki og heilmikið um að vera framundan í skólalífinu. Einn af hápunktum félagslífsins á hverjum vetri verður nk. föstudagskvöld, 15. mars, þegar árshátíð VMA verður haldin í íþróttahúsi Síðuskóla. Þetta er þriðja árið sem árshátíðin er haldin í þessum sal, sem hefur gefist ljómandi vel.

Það er að vonum heilmikið mál að halda utan um skipulagningu slíkrar hátíðar og hún hefur fyrst og fremst verið í höndum stjórnar nemendafélagsins Þórdunu. Eyþór Daði Eyþórsson, formaður Þórdunu, segir að undirbúningshópurinn fái afnot af húsnæðinu kl. 15 á fimmtudag og þá taki við mikil vinna við að standsetja húsið fyrir herlegheitin að kvöldi föstudags. Húsið verður opnað kl. 18:30 en borðhaldið hefst kl. 19:00. Að árshátíð lokinni þarf vaskur hópur fólks að taka til hendinni því húsið þarf að vera til reiðu fyrir íþróttaæfingar á laugardag.

Sem fyrr verður heilmikið lagt í árshátíðina og fjöldi skemmtikrafta stígur á stokk: DJ Sveinbjörn (sem er nemandi í VMA, rappteymið Sprite Zero Klan, músíktvíeykið ClubDub (Brynjar Barkarson og Aron Kristinn Jónasson) og Magni Ásgeirsson og Erna Hrönn og hljómsveit.

Kynnar verða fjölmiðlafólkið Sigurður Þorri Gunnarson og Valdís (Vala) Eiríks, sem bæði eru fyrrverandi nemendur í VMA.

Dansleikur hefst kl. 23:00 og verður hægt að kaupa miða á hann við innganginn. Nemendur 10. bekkjar grunnskóla eru velkomnir á ballið.

Sala aðgöngumiða á árshátíðina hófst í síðustu viku í Gryfjunni og hún verður þar í dag, á morgun og miðvikudag frá kl. 08:15 til 16:10 og frá 08:15 til 14:00 nk. fimmtudag. Fullt verð aðgöngumiða á árshátíðina – matur (sem kemur frá veitingahúsinu Bautanum), skemmtiatriði og dansleikur – er kr. 8.900 en miðinn kostar kr. 5.900 fyrir félaga í nemendafélaginu Þórdunu. Á dansleikinn kostar miðinn kr. 3.000 en kr. 2.500 ef hann er keyptur í forsölu í Gryfjunni gegn framvísun skólaskírteinis.

Vert er að undirstrika að árshátíð VMA er vímulaus skemmtun.