Fara í efni

Árshátíð VMA í kvöld

Stund milli stríða í skreytingunum í Höllinni.
Stund milli stríða í skreytingunum í Höllinni.

Þá er komið að því. Árshátíð VMA verður í Íþróttahöllinni í kvöld. Húsið verður opnað kl. 18:30 og borðhald hefst kl. 19:00. Um þrjú hundruð manns verða í borðhaldinu en ætla má að umtalsvert fleiri verði á ballinu á eftir. Veislustjóri verður Kristján Blær Sigurðsson. Ýmislegt verður til skemmtunar og má nefna að Elísa Ýrr Erlendsdóttir, sigurvegari Sturtuhaussins – Söngkeppni VMA tekur lagið, kennarar verða með atriði, Egill Bjarni stígur á stokk og sýnd verða árshátíðarmyndbönd.

Í gær var allt á fullu við að gera húsið klárt. Hópur nemenda vann baki brotnu í fyrrinótt við að gera allt klárt og fóru þeir síðustu heim undir morgun. Seinnipartinn í gær var húsið að mestu orðið tilbúið og stór hluti skreytinga kominn á sinn stað. Stjórnarmenn í Þórdunu voru hæstánægðir með hvernig til hefði tekist og sögðu að markmiðið hafi einmitt verið að ljúka undirbúningnum að mestu í gærkvöld þannig að nemendur næðu góðum nætursvefni og gætu þannig notið hátíðarinnar í kvöld. Annað kvöld verður síðan árshátíð Akureyrarbæjar í Íþróttahöllinni og því verður húsið að stærstum hluta tilbúið fyrir þá hátíð. Þórduna og árshátíðarnefnd Akureyrarbæjar hafa verið í mjög góðu samstarfi um verkaskiptingu við uppsetningu og frágang Íþróttahallarinnar.

Bautinn sér um matinn í kvöld og nýtur aðstoðar nemenda á Matvælabraut VMA. Boðið verður upp á hlaðborð þar sem verður í aðalrétt djúpsteiktur steinbítur, pastaréttur með kjúklingi, eggjanúðlur með grænmeti, villikryddaður lambavöðvi, kryddbakaðar kartöflur og ferskt salat. Í eftirrétt verður marengsísterta.