Fara í efni

Árshátíð nemenda á föstudagskvöldið í netheimum

Árshátíð 2021:Uppistand, matur og ferð í Jarðböðin
Árshátíð 2021:Uppistand, matur og ferð í Jarðböðin

Á tímum Covid er fátt eða eiginlega ekki neitt með hefðbundnum hætti. Veiran hefur heldur betur sett mark sitt á félagslíf nemenda í VMA allar götur frá því faraldurinn skall á seinnipart síðasta vetrar. Í febrúar og fram í mars tókst þó að sýna söngleikinn Grís og á þeim tíma hélt veiran sér til hlés. Fyrir það ber að þakka. En Sturtuhausinn þurfti að slá af og til stóð að halda árshátíð með hefðbundum hætti, sem ekki er heldur hægt vegna veirufaraldursins. Sem sárabót ætlar nemendafélagið Þórduna að fagna sumrinu með því að efna til óhefðbundinnar árshátíðar nk. föstudagskvöld, 23. apríl kl. 20.

Árshátíðin verður í netheimum og felst í því að allir þeir sem kaupa miða á árshátíðina fá aðgang að beinu vefstreymi kl. 20 á föstudagskvöldið þar sem fram koma þrír uppistandarar; leikarinn góðkunni Villi Neto, Þórhallur Þ (sonur Ladda – hefur verið útnefndur fyndnasti maður Íslands) og Egill Bjarni Friðjónsson, háskólanemi og fyrrv. nemandi í VMA.

Þórdunumeðlimir fá miðann á 2.500 krónur en aðrir nemendur á 3.800 krónur. Innifalið í miðanum er aðgangur að uppistandi þremenninganna á föstudagskvöldið, gjafabréf í Jarðböðin í Mývatnssveit að andvirði kr. 3.700 og gjafabréf í Pizzasmiðjuna / Bautann á Akureyri að andvirði kr. 4.000.

Miðasala er á midasala@thorduna.is.

Eins og af framangreindu má sjá fæst mikið fyrir aðgöngumiðann og því ástæða til þess að hvetja nemendur til þess að nýta sér tækifærið og fagna sumri á viðeigandi hátt. Sólin hækkar hratt á lofti þessa dagana, það styttist í skólalok á þessu vormisseri og við tekur sumarið með vonandi jákvæðari veirufréttum en síðustu daga.