Fara í efni

Árshátíð í kvöld

Að loknum tveimur kóvidárum með tilheyrandi takmörkunum verður loksins blásið til árshátíðar VMA í kvöld, 1. apríl, í Íþróttahöllinni á Akureyri. Hátíðin hefst kl. 19:00, húsið verður opnað kl. 18:30. Hér er matseðill kvöldsins.

Veislustjórar á árshátíðinni verða Vilhelm Anton Jónsson – Villi Naglbítur – og Steiney Skúladóttir, tónlistar- og leikkona.

Fram koma Friðrik Dór, söngkonan GDR og rappdúettinn Sprite Zero Klan. Um danstónlist kvöldsins sjá hljómsveitin Færibandið og DJ Dóra Júlía.

Það var í mörg horn að líta fyrir stjórnendur Þórdunu í gær þegar þeir fengu aðgang að Íþróttahöllinni til þess að undirbúa árshátíðina. Að sjálfsögðu er í mörg horn að líta til þess að gera húsið árshátíðarklárt en með samhentu átaki gengur dæmið upp og allt verður orðið klárt þegar herlegheitin byrja í kvöld kl.19.

Þeir sem það kjósa geta mætt beint á ballið, sem hefst kl. 23:00. Hægt verður að kaupa miða við innganginn. Hann kostar kr. 2.000 fyrir VMA-nema en 3.000 kr. fyrir aðra.